Erró segir að hugmyndin að svarthvítu verkunum hafi kviknað í Vínarborg á sýningu á verkum hollenska málarans Bruegel. Þegar hann féll frá hafi synir hans tekið við starfi hans og gert eftirmyndir af verkum föður síns, margar hverjar í svarthvítu.
„Þá sá ég heilan vegg af svörtum og hvítum myndum og það kveikti í öllu saman. Það er gaman að vinna í svörtu og hvítu, ekki vegna þess að liturinn er ódýrari, þetta er svo skemmtilegt. Svo er þetta eins og svartur sandur og hvít á eins og Skaftá. Á sumrin er hún hvít, jökulá og svartur sandur í kring.“
Alltaf í leit að innblæstri
Erró segist mundu leiðast ef hann ynni ekki og yrði þreyttur. Hann leggi sig nokkrum sinnum á dag en vakni ávallt endurnærður og finni lítið fyrir aldrinum.