Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svarthvítu verkin minna Erró á Skaftá að sumri

Mynd: RÚV / RÚV

Svarthvítu verkin minna Erró á Skaftá að sumri

17.10.2018 - 10:20

Höfundar

Listamaðurinn Erró opnaði sýninguna Svart og hvítt í Hafnarhúsinu um helgina. Á þessari sýningu gefur að líta um þrjátíu ný og nýleg svarthvít málverk eftir Erró. Verkin koma flest beint frá vinnustofu hans í París.

Erró segir að hugmyndin að svarthvítu verkunum hafi kviknað í Vínarborg á sýningu á verkum hollenska málarans Bruegel. Þegar hann féll frá hafi synir hans tekið við starfi hans og gert eftirmyndir af verkum föður síns, margar hverjar í svarthvítu.  

„Þá sá ég heilan vegg af svörtum og hvítum myndum og það kveikti í öllu saman. Það er gaman að vinna í svörtu og hvítu, ekki vegna þess að liturinn er ódýrari, þetta er svo skemmtilegt. Svo er þetta eins og svartur sandur og hvít á eins og Skaftá. Á sumrin er hún hvít, jökulá og svartur sandur í kring.“ 

Alltaf í leit að innblæstri

Erró segist mundu leiðast ef hann ynni ekki og yrði þreyttur. Hann leggi sig nokkrum sinnum á dag en vakni ávallt endurnærður og finni lítið fyrir aldrinum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Það er mögulegt að stíllinn á myndunum hafi breyst en það er ekki vegna þess að ég er orðinn gamall, það er bara vegna efnis sem ég fæ. Þegar ég ferðast kaupi ég allt sem ég get í bókabúðum og flóamörkuðum. Svo fæ ég svo mikið sent frá fólki sem ég þekki bara ekki.“

Hann segist ekki þurfa að hafa fyrir listinni. „Þetta kemur allt að sjálfu sér. Þegar ég vinn, sérstaklega klippimyndirnar, þá er þetta bara eins og í draumi.“

Hefði getað orðið heimildarmyndagerðarmaður 

Erró reynir að fylgjast vel með samtímalist og sækir aðrar sýningar stíft. Hann er sérstaklega hrifinn af götulist, sem finna má í almannarýmum. Spurður hvort hann hefði getað orðið eitthvað annað en listamaður segir hann fólk stundum hafa haldið að hann væri lögfræðingur.

„Ég hef ekki hugmynd vegna hvers. En ég hefði gaman af því að gera heimildarmyndamyndir um laxveiði og fleira. Já, ég hefði gaman af að vera með kvikmyndavél og gera heimildamyndir.“ 

Léttara yfir Íslendingum

Hann hefur ekki komið til Íslands í þrjú ár en segist sjá mun á fólkinu.

„Ég sé að fólkið er miklu hamingjusamara en það var fyrir þremur árum, það er einhvern veginn léttara yfir öllu.“  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hann segir að eina ráðið sem hann eigi fyrir unga listamenn sé að vinna. „Vinna eins mikið og mögulegt er, það er það eina sem getur hjálpað manni. Ég vona að ég geti unnið til síðustu stundar.“

Rætt var við Erró í Menningunni. Horfa má á viðtalið hér að ofan.