Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Svarthöfði er allra illmenna verstur

Mynd með færslu
 Mynd: Star Wars - RÚV

Svarthöfði er allra illmenna verstur

26.01.2018 - 06:34

Höfundar

Svarthöfði, erkifjandi Jedi-riddaranna og alls hins góða í óravíddum alheimsins í Stjörnustríðsmyndunum, er versta - eða besta - illmenni gjörvallrar kvikmyndasögunnar, að mati lesenda bandaríska kvikmyndatímaritsins Empire. Tímaritið efndi til kosninga meðal lesenda netútgáfu sinnar og bað þá að tilnefna það fól og fúlmenni hvíta tjaldsins, sem þeim þótti bera af öðrum fyrir illsku sakir og níðingsskap.

Í umsögn um Svarthöfða segir, að þótt afhjúpanir um æsku Svarthöfða í öðrum Stjörnustríðsþríleiknum hafi ef til vill ekki gert mikið fyrir orðspor hans, þá hafi þær heldur ekki megnað að skaða orðstír hans sem óþokka og þrælmennis - skikkjuklæddir skúrkar verði einfaldlega ekki skelfilegri en Svarthöfði.

Í öðru sæti lenti Jókerinn úr Batman-bálkinum. Er það ekki síst rakið til frammistöðu Heath Ledgers í hlutverki þessa illkvittna úrþvættis í mynd Chris Nolans um Leðurblökumanninn, The Dark Knight, frá 2008. Af einhverjum ástæðum landar ódámurinn Loki Laufeyjarson þriðja sætinu í þessari lesendakönnun vestra. Rýnendur Empire þakka það einkum frammistöðu Josh Whedon í kvikmyndinni Avengers Assemble.

Í fjórða sætinu er enginn annar en hrakmennið Hans Gruber, sá holdgervingur hinnar ísköldu blöndu hroka og hrottaskapar sem fékk sín maklegu málagjöld í Nakatomi-turninum í fyrstu Die Hard-myndinni, eða Á tæpasta vaði, eins og hún heitir á íslensku. Alan Rickman var jafn óaðfinnanlegur og hann er eftirminnilegur í því hlutverki.

Mannætan Hannibal Lecter, í meðförum Anthony Hopkins skipar fimmta sætið á illfyglalistanum. Á honum eru alls tuttugu varmenni, þrjótar og ódrættir. Fulltrúar myrku hliðar máttarins, sithriddarar, eru áberandi á þessum óþverralista, sem geymir þá Kylo Ren og  Palpatín auk Svarthöfða.

Aðeins ein kona fær náð fyrir augum varmennaveljenda. Það er hjúkrunarkonan og eiturnaðran Mildred Ratched úr Gaukshreiðrinu, sem Louise Fletcher fékk verðskulduð Óskarsverðlaun fyrir að leika á sínum tíma.

Listinn í heild sinni lítur annars svona út:
1. Svarthöfði
2. The Joker - Jókerinn
3. Loki Laufeyjarson
4. Hans Gruber 
5. Hannibal Lecter
6. Hans Landa (Inglorious Basterds, Christoph Waltz)
7. Kylo Ren (Stjörnustríð, Adam Driver)
8. Anton Chigurh (No Country for Old Men, Javier Bardem)
9. Voldemort (Harry Potter)
10. Skrímslið úr Alien-bálkinum
11. Gollum (Hringadróttinssaga)
12. Sauron (Hringadróttinssaga)
13. Mildred Ratched (Gaukshreiðrið)
14. Fógetinn af Nottingham (Hrói Höttur)
15. Palpatín (Stjörnustríð)
16. Norman Bates (Psycho, Anthony Perkins)
17. Agent Smith (Matrix, Hugo Weaving)
18. Freddy Kruger (Martröð á Álmstræti, Robert Englund)
19. T-1000 (Tortímandinn 2, Dómsdagur, Robert Patrick)
20. Michael Myers (Halloween, Tony Moran)

Umfjöllun Empire má lesa með því að smella hér.