Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Svartárvirkjun þarf í umhverfismat

18.02.2016 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að virkjun Svartár í Þingeyjarsveit þurfi að fara í umhverfismat. Virkjunin mun framleiða 9,8 megavött en allar virkjanir sem framleiða meira en 10 megavött fara sjálfkrafa í umhverfismat.

Skylt er að tilkynna fyrirhugaðar framkvæmdir af þessari stærðargráðu til Skipulagsstofnunar, sem síðan tekur afstöðu til þess hvort ráðast þurfi í umhverfismat eða ekki. Í úrskurði hennar kemur fram að eðli framkvæmdarinnar, með tilliti til stærðar og umfangs, sé ein ástæða þess að krafa sé gerð um umhverfismat.

Þá sé framkvæmdin líklegt til að hafa áhrif á verndarsvæði og dýrartegundir sem á því þrífast. Í úrskurðinum kemur fram að rask verði á votlendi, sem erum 10 hektarar, en allt votlendi stærra en 2 hektarar nýtur sérstakrar verndar. Aðeins brýn nauðsyn geti réttlæt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir.

Ráðgert er að stíflan sjálf verði 60 metra löng, aðrennslispípa í stöðvarhús verði 3,1 kílómeter að lengd og að sjálft stöðvarhúsið verið 450 fermetrar að stærð. Auk þess er gert ráð fyrir því 46 kílómetra löngum jarðstreng að tengivirki. 

Í umsögn sem Fiskistofa sendi inn til Skipulagsstofnunar kemur fram að framkvæmdin muni hafa neikvæð áhrif á fiskistofna í vatninu. Þar kemur einnig fram að ekki sé ljóst hvort mótvægisaðgerð á borð við fiskveg við stíflu muni duga til að viðhalda hrygningarskilyrðum á svæðinu. Fiskistofa byggir umsögn sína meðal annars á gögnum frá Veiðimálastofnun.

Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að Veiðimálastofnun hafi ekki tekið tillit til þess að fiskvegur yrði byggður. Þá hafi stofnunin metið heildarveiði í Svartá, en framkvæmdin muni aðeins hafa áhrif á hluta hennar. Mestu áhrifin muni verða á þeim kafla og neðan við Ullarfoss, sem sé ófiskgengur.

Hægt er að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Frestur til þess er til 22. mars.