Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Svarta hagkerfið í ferðaþjónustu að stækka

08.04.2014 - 17:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Svört atvinnustarfsemi virðist vera að aukast í ferðaþjónustunni hér á landi, sé litið til þróunar skatttekna af ferðamönnum, miðað við greiðslukortanotkun þeirra. Þetta kemur fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins sem kynnt verður á morgun.

„Okkar niðurstöður benda til þess að skatttekjur af ferðafólki haldist ekki í hendur við aukin umsvif í ferðaþjónustunni,“ segir Sigríður Mogensen, hagfræðingur hjá SA. „Kortavelta erlendra ferðamanna jókst um 30% á tímabilinu frá 2008 - 2012, en á sama tíma drógust skatttekjur á hvern ferðamann saman um 11%. Engar verulegar breytingar voru gerðar á skattkerfinu á þessum tíma sem gætu skýrt þessa þróun, þannig að líklegasta skýringin er að svört atvinnustarfsemi í þessum geira sé mikil,“ segir Sigríður.

Hún telur að ríkissjóður hafi orðið af milljörðum króna í skatttekjur á þessu tímabili. „Við erum ekki að mælast til þess að skattar á ferðaþjónustuna verði hækkaðir, heldur að svört atvinnustarfsemi í  verði dregin upp á yfirborðið.“

Samkvæmt tölum SA frá fjármálaráðuneytinu voru heildarskatttekjur af ferðaþjónustunni um sautján milljarðar króna árið 2008 (á verðlagi ársins 2012), en um 20 milljarðar árið 2012 (á verðlagi þess árs). Erlendum ferðamönnum fjölgaði hins vegar um 35% á sama tímabili, og um 60%, á tímabilinu frá 2008 - 2012.