Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Svara samningstilboði SA á föstudaginn

13.02.2019 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök atvinnulífsins gerðu viðsemjendum sínum lögðu fram samningstilboð í kjaraviðræðunum í morgun sem stendur til föstudags. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segið komið að ögurstundu í viðræðunum. 

Fundurinn í kjaradeilunni hófst hjá Ríkisáttasemjara klukkan tíu í morgun og þegar honum lauk um einum og hálfum tíma síðar, voru viðsemjendur fremur orðvarir enda staðan í kjaradeilum viðkvæm.

„Það gerðist það að við fengum tilboð frá Samtökum atvinnulífsins sem við erum bundin trúnaði um að sinni. Við munum hittast aftur á föstudaginn þar sem við munum þá koma með viðbrögð við þessu tilboði,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

Ragnar Þór ætlar að hitta samninganefnd sína í kvöld og í fyrramálið og fara yfir tilboðið.

„Það liggur alveg fyrir og það er alveg ljóst að aðkoma stjórnvalda þarf að vera umtalsverð ef þessi kjaradeila á að leysast. En það er alveg ljóst að það er komið að ákveðinni ögurstund í þessum viðræðum,“ segir hann.

Ragnar segir að tilboð SA hafi verið þess virði að skoða og farið verði vel yfir það. Fólk sé sammála um að stefna að þriggja ára samningi. Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins 

„Við ræddum svo sem marga hluti og þar með talið svigrúm til launahækkana í samfélaginu og með hvaða hætti mætti ráðstafa því svigrúmi til að leysa úr þessari kjaradeilu. Á hverjum fundi leggja Samtök atvinnulífsins eitthvað inn í til að leysa deiluna og það var engin undantekining þar á í dag,“ segir Halldór. 

Eruð þið að þokast eitthvað nær eftir þennan fund?
„Ég hef svo sem sagt að hver fundur færir okkur nær lausn en við erum komin að viðkvæmasta kjarnanum í samningaviðræðum,“ segir Halldór.

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV