Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Svar ráðherra byggt á misskilningi

10.09.2014 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkissaksóknari segir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hafa farið með framkvæmd rannsóknarinnar á lekamálinu. Ríkissaksóknari hafi gefið ákveðin fyrirmæli. Fræðimenn segja afstöðu innanríkisráðherra sem komi fram í bréfi hennar byggða á grundvallarmisskilningi.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir í bréfi sínu til umboðsmanns Alþingis að Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki getað haft nein efnisleg áhrif á rannsókn lekamálsins heldur hafi hún verið í höndum ríkissaksóknara. 

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir í svari við fyrirspurn fréttastofu í dag að embættið sé almennt yfir rannsóknum, en hvað lekamálið varðar voru lögreglustjóranum gefin fyrirmæli um rannsóknina. Auk þess átti rannsókn á kæru hælisleitandans Tony Omos að fara fram í samráði við ríkissaksóknara. Framkvæmd rannsóknarinnar var síðan í höndum lögreglu líkt og lög gera ráð fyrir.

Lögspekingar sem fréttastofa ræddi við í dag eru allir á einu máli um að þessi afstaða ráðherra sé mikil einföldun og nokkrir hafa sagt að hún byggi á grundvallarmisskilningi í sakamálarétti. Að halda því fram að lögreglustjóri hafi ekkert með framkvæmd rannsóknarinnar að gera sé einfaldlega ekki rétt. Einnig sé falin ákveðin þversögn í því að segja að með því að eiga í samskiptum við Stefán um rannsóknina, á meðan á henni stóð, hafi Hanna Birna verið að tryggja framgang rannsóknarinnar og greiða fyrir henni. Hanna Birna vildi ekki veita viðtal vegna málsins og vísaði í bréf sitt.