Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svalt nýbylgjurokk     

Mynd:  / 

Svalt nýbylgjurokk     

30.11.2018 - 10:11

Höfundar

Benny Crespo‘s Gang lætur hér frá sér ansi frískt nýbylgjurokk í formi plötunnar Minor Mistakes – ellefu árum eftir frumburðinn. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Benny Crespo‘s Gang var með allra bestu nýrokksveitum fyrsta áratugarins, þétt band og gott sem samanstóð af vinahópi af Suðurlandi. Á meðal meðlima sjálf Lay Low, sem var heimsfræg á Íslandi á sama tíma og Benny var að vekja athygli (aðrir liðsmenn eru þeir Bassi Ólafsson, Helgi Rúnar Gunnarsson og Magnús Árni Öder Kristinsson). Firnaöflug sveit á tónleikum en fyrsta plata hennar, samnefnd henni (2007) sannfærði mig ekki. Hvað olli veit ég ekki, kannski var platan of lengi í ofninum, en í öllu falli fannst mér hún ekki ná að fanga þann anda sem maður fann fyrir uppi á sviði. Hvað um það, sveitin hefur verið til síðan þá (og hefur reyndar starfað óslitið í fimmtán ár með sama mannskap) og hefur spilað reglulega, þó stundum hafi spilamennskan einskorðast við eina Airwaves-tónleika. Og, eitthvað hafa meðlimir líka verið með á sköpunartankinum, því að hér hef ég í höndunum nýja breiðskífu, Minor Mistakes.

 

Allur gangur

Það er eðlilega allur gangur á því hvernig svona plötur verkast, þ.e. þegar nokkuð þekkt og vel metin sveit snýr aftur með nýtt efni eftir talsverðan tíma. Venjulega eiga hljómsveitirnar ekki séns í þær væntingar sem verið hafa, og því sama hversu góð platan er, henni er ætíð stillt upp gagnvart fyrri afrekum og stenst sjaldnast þann samanburð. Sumar sveitir gefa þá út plötu sem vantar þann kraft og þá töfra sem sannarlega léku um hana í gamla daga. Slappt efni, gefið út á röngum forsendum, og hefði betur verið áfram í kössum. Enn aðrar sveitir leita þá á nýjar lendur, reyna eitthvað nýtt, og eru óþekkjanlegar – til blessunar eða bölvunar.

Ekkert af þessu á reyndar við um Minor Mistakes. Hvað veldur, aftur veit ég ekki, en það er dýpra á svo gott sem öllu í þetta sinnið. Slagkrafturinn, sem ég saknaði hvað fyrstu plötu varðar, er hér svo um munar. Lög eru betri og úthugsaðri, vel samsett og oft er eins og viðlagið komi úr öðru lagi – eitthvað sem þó gengur fullkomlega upp. Það er nett progg í gangi hérna, líklega afleiðingar þess að starfa samhliða sveitum eins og Mars Volta þarna um miðjan fyrsta áratuginn (sjá „ON & OFF“ og „In the Know“ sem dæmi um þetta). Þessar fimleikaæfingar eru þó aldrei á kostnað melódíunnar, jafnvægið þarna á milli er gott og heilbrigt. Spilamennska er frámunalega góð og tónlistin er sú sama og áður; melódískt, rífandi nýbylgjurokk en bara þroskaðra á allan hátt. Tíminn vinnur með Benny, ekki á móti, í þessu tilfelli.

Skothelt

Sem sagt, skothelt nýbylgjurokk frá hljómsveit sem hefur alla tíð haft allt til brunns að bera. Og þó að þetta sé búið að vera „on & off, push and pull“, svo ég vitni í lagið, er það bara fínt, ef menn eiga svona nokkuð til. Samþykkt, afgreitt og gæðavottað!

Með því að smella á myndina efst í færslunni má heyra samtal þeirra Þorsteins Hreggviðssonar í Popplandi, Andreu Jónsdóttur og Arnars Eggerts um Plötu vikunnar.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Benny Crespo's Gang - Minor Mistakes

Popptónlist

Nýtt lag og myndband frá Benny Crespo's Gang