Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Svala og JóiPé x Króli á Aldrei fór ég suður

Mynd með færslu
 Mynd:

Svala og JóiPé x Króli á Aldrei fór ég suður

13.02.2019 - 12:55

Höfundar

Todmobile, Bagdad Brothers, Mammút, Teitur Magnússon og Svala eru meðal flytjenda á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem haldin verður í sextánda skiptið á Ísafirði um páskana, 19.–20. apríl.

Hátíðin fer fram í húsnæði Kampa á Ísafirði eins og síðustu þrjú ár að kvöldi föstudagsins langa og laugardags í dymbilviku. Alls verða fjórtán atriði á dagskrá og farið verður um víðan völl í straumum og stefnum. Landsþekktar hljómsveitir stíga á svið í bland við ungt og upprennandi tónlistarfólk og listamenn úr heimabyggð. Hátíðin hefur breyst, þróast og stækkað í áranna rás en kynnirinn hefur þó verið sá sami frá upphafi: fallegi smiðurinn Pétur Magg, sem öskurkynnir hvert einasta atriði á svið eins og þar sé Rolling Stones á ferð. 

Fallegi smiðurinn kynnir listamenn Aldrei fór ég suður 2019.

Berndsen, Teitur Magnússon, Svala, aYia og Bagdad Brothers eru að koma fram í fyrsta skipti á hátíðinni í ár. Söngkonan Salóme Katrín er frá Ísafirði en hún hyggst frumflytja frumsamið efni á Aldrei fór ég suður. Ísfirski lagahöfundurinn og upptökustjórinn Þormóður Eiríksson kemur einnig fram en hann hefur unnið hvern smellinn á fætur öðrum fyrir listamenn eins og JóaPé og Króla, sem einnig koma fram á hátíðinni, þar á meðal risaslagarann B.O.B.A.

Aldrei fór ég suður er ókeypis tónlistarhátíð fyrir alla fjölskylduna og er einn af stærstu viðburðum Skíðaviku Ísfirðinga. Hátíðin hefur þróast frá því hún var sett á laggirnar fyrir um 15 árum og teygir nú anga sína víðar um Ísafjarðarbæ og nágrenni. Við aðaldagskrána eiga eftir að bætast hliðarviðburðir á Ísafirði og nágrenni, meðal annars uppistandskvöld í Ísafjarðarbíói og tónleikar á Suðureyri og Flateyri. Hátíðin verður í beinni útsendingu á Rás 2 og í sjónvarpi á RÚV 2.

Eftirfarandi tónlistarmenn koma fram á hátíðinni:

Mammút 
Todmobile
JóiPé x Króli
Jónas Sig
Salóme Katrín
Auðn
Berndsen
Þormóður Eiríksson
Svala
Sigurvegarar Músíktilrauna 2019 
Herra Hnetusmjör
Hórmónar
aYia
Bagdad Brothers
Gosi
Teitur Magnússon & Æðisgengið

Tengdar fréttir

Tónlist

Metaðsókn á Aldrei fór ég suður

Tónlist

Átta ástæður til að fara á Aldrei fór ég suður

Menningarefni

Aldrei fór ég suðurgata á Ísafirði

Menningarefni

Aldrei fór ég suður: Áhrif á allt samfélagið