Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Svæði Þjóðskjalasafnsins verðmætt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Svæði Þjóðskjalasafnsins verðmætt

13.12.2015 - 13:53

Höfundar

Með sölu á húsnæði Þjóðskjalasafnsins við Laugaveg 162 verður svæði gamla Mjólkursamlagsins verðmætara og í því felst tækifæri segir Guðlaugur Þór Þórðarson varaformaður fjárlaganefndar Alþingis. Safninu verði sýndur fullur sómi með hentugra húsnæði.

Meirihluti fjárlaganefndar leggur til í breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið að húsnæði Þjóðskjalasafnsins í gamla Mjólkursamlagshúsinu verði selt og að keypt eða leigt verði annað hentugra húsnæði.

 

Tækifæri til að gera svæðið verðmætara

Guðlaugur segir mjög mikilvægt að fram komi að þegar svona heimild sé veitt í fjárlögum, þá þýði það ekki sjálfkrafa að viðkomandi hlutur sé seldur. „Og allra síst mjög hratt, án þess að búið sé að gera viðeigandi ráðstafanir með þá starfsemi sem er til staðar. Þetta er í raun og veru tvennskonar" segir Guðlaugur. „Annars vegar tækifæri sem við höfum ekki séð áður vegna þess að það eru fleiri ferðamenn í borginni. Borgin, eða miðborgin, hefur stækkað og þar af leiðandi verðmæti þessa svæðis, ekki bara hússins, heldur svæðisins í kring. Þannig að það væri hægt að gera þetta svæði enn betra en það er í dag og það eru svo sannarlega tækifæri í því. Og síðan skapa einhverja fjármuni til þess að gera aðstöðu fyrir Þjóðskjalasafnið á einhverjum þeim stað sem myndi henta því og sómi væri að."

Ekki verið að gera lítið úr starfi safnsins

Eiríkur G. Guðmundsson Þjóðskjalavörður sagði í viðtali í kvöldfréttatíma útvarpsins 12. desember að húsið hentaði ágætlega fyrir starfsemi Þjóðskjalasafnsins. Búið væri að fjárfesta fyrir hundruð milljóna króna undanfarin ár. Guðlaugur segir rétt að fjárfestingar hafi verið miklar. „En ástæðan fyrir því er að húsið hentaði ekki vel. Það þurfti að gera við það og eftir því sem ég best veit er því verki ekki lokið. Þetta eru gríðarlega háar upphæðir. Ég held að aðalatriðið sé þetta. Það er enginn að hugsa um það að gera lítið úr eða hugsa ekki fyrir þeirri merku starfssemi sem er í Þjóðskjalasafninu. Þetta snýst ekkert um það."

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þjóðskjalavörður undrandi á sölutillögu

Menningarefni

Óttast um framtíð Þjóðskjalasafns