Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Svæði á stærð við Reykjanesið undir vatni

25.03.2019 - 20:55
Erlent · Afríka · Flóð
Mynd:  / 
Óttast er að minnst 750 séu látin eftir mannskæð flóð í suðausturhluta Afríku. Löndin sem verst urðu úti eru meðal fátækustu ríkja heims.

Óttast er að minnst 750 séu látin eftir mannskæð flóð í suðausturhluta Afríku. Löndin sem verst urðu úti eru meðal fátækustu ríkja heims. 

„Þessi þrjú lönd, Malaví, Mósambík og Simbabve eru nú með þeim fátækari í heiminum. Mjög berskjaldað fólk sem býr þarna margt í sunnanverðri Afríku,“ segir Guðný Nielsen, verkefnastjóri mannúðarsviðs Rauða krossins.

Umfang flóðanna er gríðarlegt og eru meira en 3.200 ferkílómetrar lands í Mósambík undir vatni. Að flatarmáli jafngildir það svæðinu frá Reykjanesbæ að Þorlákshöfn, og frá Selfossi að Mosfellsbæ.

Mynd með færslu
 Mynd:

Fjórða stærsta borg Mósambík, Beira, hefur orðið hvað verst úti. Um 90% borgarinnar hafa orðið fyrir skemmdum, og hún er nú í raun einangruð eyja, með takmarkaðan eða engan aðgang að rafmagni og hreinu vatni. 

„Víða á þessum svæðum er mjög erfitt internetsamband, gsm samband svo við erum líka að vinna með það. Vegir auðvitað eyðileggjast í svona flóðum, brýr falla svo það er erfitt að komast að mörgum af þessum svæðum,“ segir Guðný. 

Enn er á reiki hversu mörg eru látin eftir flóðin. Talið er að hamfarirnar hafi kostað um 750 mannslíf, hið minnsta. Líklega eru þó umtalsvert fleiri látin. 

„Það er hægt að sjá á myndböndum að heilu svæðin, ræktarsvæðin, eru bara algjörlega ónýt. Það þarf að koma eitthvað meira til og það mun taka tíma að hjálpa þessu fólki að komast aftur. Það er í raun bara á byrjunareit,“ segir Guðný. 

Rauði krossinn stendur nú fyrir neyðarsöfnun vegna náttúruhamfaranna.

„Fólkið er í rauninni bara á vergangi, það er bara svona bráðabirgða úrræði til staðar núna. Eins og ég segi þetta eru bara svona tjöld sem Rauði krossinn hefur verið að setja upp og fólk fær að vera og fær sálrænan stuðning,“ segir Guðný. 

Það er ofsalega mikilvægt á svona flóðasvæðum að passa það að hreinlæti sé gott og bara það að koma upp salernisaðstöðu til þess að vatnsbornir sjúkdómar eins og kólera til dæmis fari ekki að breiðast út.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV