Fjórða stærsta borg Mósambík, Beira, hefur orðið hvað verst úti. Um 90% borgarinnar hafa orðið fyrir skemmdum, og hún er nú í raun einangruð eyja, með takmarkaðan eða engan aðgang að rafmagni og hreinu vatni.
„Víða á þessum svæðum er mjög erfitt internetsamband, gsm samband svo við erum líka að vinna með það. Vegir auðvitað eyðileggjast í svona flóðum, brýr falla svo það er erfitt að komast að mörgum af þessum svæðum,“ segir Guðný.
Enn er á reiki hversu mörg eru látin eftir flóðin. Talið er að hamfarirnar hafi kostað um 750 mannslíf, hið minnsta. Líklega eru þó umtalsvert fleiri látin.
„Það er hægt að sjá á myndböndum að heilu svæðin, ræktarsvæðin, eru bara algjörlega ónýt. Það þarf að koma eitthvað meira til og það mun taka tíma að hjálpa þessu fólki að komast aftur. Það er í raun bara á byrjunareit,“ segir Guðný.
Rauði krossinn stendur nú fyrir neyðarsöfnun vegna náttúruhamfaranna.
„Fólkið er í rauninni bara á vergangi, það er bara svona bráðabirgða úrræði til staðar núna. Eins og ég segi þetta eru bara svona tjöld sem Rauði krossinn hefur verið að setja upp og fólk fær að vera og fær sálrænan stuðning,“ segir Guðný.
Það er ofsalega mikilvægt á svona flóðasvæðum að passa það að hreinlæti sé gott og bara það að koma upp salernisaðstöðu til þess að vatnsbornir sjúkdómar eins og kólera til dæmis fari ekki að breiðast út.