Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Súrt regn fellur vegna eldgossins

13.11.2014 - 14:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Súrt regn hefur fundist í þó nokkrum sýnum sem Veðurstofan hefur safnað frá því í september. Helst hefur þótt athyglisvert hve súrt regnið hefur verið, en sýrustig hefðbundinnar úrkomu er á milli fimm og sex. Í þessum sýnum hefur sýrustigið hins vegar farið niður í þrjá.

Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár hjá Veðurstofunni, segir að í um 40% sýna hafi komið í ljós að rigningarvatnið hafi verið súrt. Sýnunum er safnað víðsvegar um landið, en þó ekki á svo mörgum stöðum að hægt sé að fullyrða um að súrt regn hafi fallið á landinu öllu.

Súru regni hefur verið safnað á höfuðborgarsvæðinu, við Írafoss á Suðurlandi, Hítardal á Vesturlandi, Reykjahlíð á Norðurlandi og í Höfn á Hornafirði á Austurlandi.

Súrt regn er ekki talið hafa bein áhrif á heilsufar fólks en hefur áhrif á lífríkið - gróður og dýr og getur t.a.m. valdið fiskadauða. Þá hefur súrt regn áhrif á tæringu málma, svosem rafmagnslína.