Sungu sálma í 60 klukkustundir

Mynd með færslu
 Mynd:

Sungu sálma í 60 klukkustundir

02.12.2014 - 20:44
Sálmasöngur hljómaði í norska sjónvarpinu sleitulaust í 60 klukkustundir síðastliðna helgi. Tvö hundruð kórar tóku þátt í útsendingunni sem margir fylgdust með. Skýringin er talin vera þörf fólks fyrir að tilheyra norsku samfélagi.

Norska sjónvarpið er þekkt fyrir rólega sjónvarpsþætti sem mikið er horft á. Sumarið 2011 var það bein útsending frá siglingu strandferðaskips norður frá Björgvin. Í febrúar í fyrra var það helgarútsending um eldivið og arineld og í nóvember í fyrra var það norskt prjónakvöld á föstudegi. Nú var það sálmasöngur frá hádegi á föstudaginn og fram til miðnætti í gærkvöldi.

Útsending stóð sleitulaust í 60 klukkustundir. Tvö hundruð kórar tóku þátt og fluttir voru í réttri röð allir 899 sálmarnir í nýju norsku sálmabókinni. Sungið var í Frúarkirkjunni í Þrándheimi. Samkvæmt upplýsingum frá NRK fylgdust um 2,2 milljónir Norðmanna með flutningi á að minnsta kosti einum sálmi.

Félagsfræðingur sem norska sjónvarpið ræddi við telur að þörfin fyrir að tilheyra samfélagi og hafa félagsskap af náunganum, sem sé að horfa á sömu útsendingu, sé ein helsta skýringin fyrir því af hverju svona þættir séu vinsælir í Noregi.