Sundabraut á samgönguáætlun

14.03.2014 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Sundabraut er komin á samgönguáætlun að nýju en huga á að því að einkaaðilar fjármagni hana. Þá er stefnt að því að bjóða út Dýrafjarðargöng eftir tvö ár.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun drög að nýrri samgönguáætlun fyrir tímabilið 2013 til 2016. Alþingi á eftir að samþykkja áætlunina. Þar er gert ráð fyrir tíu prósenta hækkun á fjármagni til viðhaldsverkefna á næsta ári. Langstærsta einstaka verkefnið er Norðfjarðargöng sem þegar er byrjað á, en í þau eiga að fara þrír milljarðar á tímabilinu. 850 milljónir fara í framkvæmdir við jarðgöng undir Húsavíkurhöfða vegna uppbyggingar á Bakka. 800 milljónir fara í breikkun vegar yfir Hellisheiði, 500 milljónir fara í framkvæmdir við Arnarnesveg og 400 milljónir verða lagðar í Vestfjarðarveg, Dettifossveg og brú yfir Jökulsá á Fjöllum, hvert fyrir sig. 

Meira er á döfinni. Á þessu ári á til að mynda að hefja rannsóknir vegna Fjarðarheiðarganga, en hún hefur oft reynst töluverður farartálmi á leið til og frá Seyðisfirði. Að auki er gert ráð fyrir að Dýrafjarðargöng, sem Vestfirðingar hafa nokkuð þrýst á, verði boðin út árið 2016. Þá er Sundabraut komin á samgönguáætlun en hún hefur ekki verið þar síðan skömmu eftir hrun. Huga á hins vegar að fjármögnun hennar með þátttöku einkaaðila.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi