Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Ný heimildarmynd eftir Grím Hákonarsonar, Litla Moskva, fjallar um Nesskaupstað og ítök Alþýðubandalagsins og sósíalista þar í 52 ár. Þetta er heimildarmynd sem horfir aftur til daga þegar heimurinn virtst vera svarthvítur – annað hvort varstu með kommunum eða kaupfélaginu eins og einn viðmælandinn segir. Tvær andstæðar fylkingar, hægri eða vinstri, svo var bara að velja hlið og halda sig þar, einfalt líf ekki satt? Leikstjórinn Grímur segist sjálfur hafa verið heillaður af þessu rauða þorpi sem skar sig úr í kosningasjónvarpinu þar sem blái liturinn var ríkjandi um land allt. Gerð Litlu Moskvu hófst fyrir um fimm árum og það er óhætt að segja að myndin komi út á góðum tíma en sósíalísk hugmyndafræði er aftur komin upp á pallborðið í stjórnmálalandslagi nútímans eftir áratugi af ríkjandi hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.
Ég minntist á það fyrr í haust í umfjöllun minni um heimildamyndina Bráðum verður bylting, sem fjallar um sendiráðstöku íslenskra námsmanna í Stokkhólmi árið 1970, að þessar tvær myndir, Litla Moskva og Bráðum verður bylting, væru til marks um endurnýjun áhuga á sósíalískri hugmyndafræði og byltingaranda fortíðar. Myndir um liðna tíð sem tala inn í samtímann. Bráðum verður bylting minnist einnig á þann atburð þegar bændur í Suður-Þingeyjarsýslu tóku sig til og sprengdu stíflu í Laxá við Mývatn en Grímur hefur einmitt gert þessum atburði skil í heimildarmyndinni Hvellur frá árinu 2013.