Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sumarið stendur fram í september

24.07.2017 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Trausti Jónsson veðurfræðingur segir að sumarið standi langt fram í september ef skoðaðar eru hitatölur fyrir hvern dag sumars rúm fjörutíu ár aftur í tímann. Sumarhitinn er mestur síðustu vikuna í júlí og fyrstu vikuna í ágúst og mun hlýrra er 31. ágúst en 1. júní.

Sumarið stendur vel fram í september og hlýjasti tími sumarsins er einmitt nú, dagana í kringum 23. júlí sem forfeður okkar kölluðu miðsumar. Þetta segir Trausti Jónsson veðurfræðingur á bloggi sínu, Hungurdiskar. Í nýjustu færslu sinni rýnir hann í hitatölur á landinu frá 1. júní til 31. ágúst á árunum 1973-2016 í því skyni að kanna hvort forfeður okkar hafi hitt rétt á þegar þeir nefndu 23. júlí miðsumar, með tilliti til hita.

Trausti segir að samkvæmt meðalhita og meðalhámarkshita í byggð hækki jafnt og þétt frá 1. júní allt fram yfir miðjan júlí. Hæsti meðalhiti sé síðustu vikuna í júlí og fyrstu vikuna í ágúst. „Svo vill þó til að 8. ágúst rétt mér það að vera hlýjastur - en það er líklega tilviljun, 26. júlí er nánast jafnhlýr,“ bendir Trausti á. Meðalhámarkshiti er mestur 24. júlí og meðallágmarkshitinn hæstur 26. júlí. „ í öllum tilvikunum er hlýrra 31. ágúst heldur en 1. júní. Ef við göngum út frá því að nægilega hlýtt sé orðið 1. júní til að vori sé lokið og sumar hafið hljótum við að viðurkenna að sumarið stendur vel fram í september,“ segir Trausti.

Hann skoðar jafnframt tölur yfir hæsta hita hvers dags á landinu á tímabilinu og lægsta lágmarkshita. Þær sýna líka að sumarhitinn nær hámarki eftir miðjan júlí.  Þar má einnig sjá að lágmarkshitastigið er mun hærra í lok ágúst en 1. júní. Hið sama á við meðaltal lægsta hámarkshita landsins. Samkvæmt því er hann 8. ágúst, „og ágústlok eru ámóta hlý og tíminn kringum 10. júlí - sumarið aldeilis ekki búið,“ segir Trausti.

Hann bendir einnig á að mestu líkurnar séu á hitametum séu á tímabilinu 20. júní til 15. ágúst.

 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir