Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Sumarið er ónýtt fyrir okkur“

09.06.2017 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Ekki hefur tekist að leysa deilu sjóstangaveiðifélaga og Fiskistofu og því er sjóstangaveiði sumarsins enn í uppnámi, að sögn formanns Landssambands sjóstangaveiðifélaga. Sáttanefnd vinnur að lausn málsins, en félög innan sambandsins hafa enn ekki haldið mót á árinu.

Ósátt við kröfur Fiskistofu

Líkt og fjallað var um í byrjun maí þá hafa fæst sjóstangaveiðifélög landsins fengið leyfi hjá Fiskistofu til að halda mót og veiða allt að 200 tonn án kvóta. Forsvarsmenn sjóstangaveiðifélaga eru ósáttir við þær kröfur sem Fiskistofa gerir um mótshald. Stofnunin fer hins vegar fram á að félögin skili inn ákveðnum gögnum til þess að fá leyfi til mótshalds.

Elín Snorradóttir, formaður Landssambands sjóstangaveiðifélaga, segir að deilan sé enn óleyst. Ákveðið var að kæra aðgerðir Fiskistofu til ráðuneytisins og liggja þar sex kærur, ein fyrir hvert sjóstangaveiðifélag. Eitt félag, Sjóstangaveiðifélag Vestmannaeyja, hefur fengið leyfi á síðustu vikum, en að öðru leyti sé staðan óbreytt. Elín segir að sáttanefnd vinni nú að lausn málsins, enda sé kæruferlið tímafrekt og komi endanlega í veg fyrir að nokkur mót verði haldin í sumar. „Við erum í samningaviðræðum og erum að reyna að leita sátta þannig að megi leysa þessa hnúta,“ segir Elín. 

Engin mót verið haldin

Elín segir að fyrstu mót ársins hafi venjulega verið haldin í apríl, og jafnvel í mars, en hingað til hefur þurft að fresta öllum mótum á vegum Landssambandsins. „Sumarið er ónýtt hjá okkur, þetta hefur haft gífurlega mikil áhrif á okkur,“ segir Elín, en bætir þó við að sjóstangaveiðifólk hafi ekki gefið upp alla von. „Við reynum eftir fremsta megni að koma öllum mótunum fyrir. Það verður rosalega þétt dagskrá þá sem hefur þær afleiðingar að við fáum ekki eins marga keppendur á mótin, þannig að við berum alltaf skaða af,“ segir Elín.