Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sumarhús í Bjarnarfirði eyðilagðist í eldi

29.11.2017 - 00:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mannlaust sumarhús í Bjarnarfirði í Kaldrananeshreppi, milli Drangsness og Hólmavíkur, eyðilagðist í eldi í kvöld. Búið var að ná tökum á eldinum, sem þó logaði enn á milli þilja, þegar fréttastofa náði tali af Finni Ólafssyni, slökkviliðsstjóra í Kaldrananeshreppi, laust fyrir miðnætti í kvöld. Þá stóð slökkvistarf enn yfir og reiknaði Finnur með að því lyki ekki fyrr en síðar í nótt. Húsið, sem er gamall sveitabær sem breytt hefur verið í sumarhús, er gjörónýtt að sögn Finns.

Slökkviliðsmenn úr slökkviliðum Strandabyggðar og Kaldrananeshrepps taka þátt í slökkvistarfinu og hafa við það notið aðstoðar heimamanna.

Uppfært kl. 02.15: Slökkvistarfi lokið

Í samtali við fréttastofu laust eftir tvö í nótt sagði Finnur að slökkvistarfi hefði lokið um klukkan tvö. Slökkvistarfið gekk nokkuð vel, að hans sögn, en aðstæður voru nokkuð erfiðar. Til dæmis þurfti að brjóta leið niður að nálægri á til að komast í vatn, og var það gert með aðstoð heimamanns á sérútbúinni dráttarvél. Brjóta þurfti niður hluta þaks og veggja til að komast að síðustu glæðunum og slökkva þær.

Eldsupptök eru ókunn en lögregla hefur nú tekið við vettvangi og mun leiða rannsókn á þeim.
 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV