Sumar í Frystiklefanum

Frystiklefinn í Rifi - Mynd: LANDINN / RÚV

Sumar í Frystiklefanum

07.06.2018 - 15:20
Sjávarþorpið Rif er ef til vill ekki fyrsti staðurinn sem margir hugsa sér að heimsækja en þar iðar allt af listum og menningu yfir sumarið, að hluta til vegna Frystiklefans, leikhúss og gistiheimilis staðarins.

Kári Viðarsson, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi Frystiklefans, segir staðinn í raun vera eins konar menningarmiðstöð fyrir Snæfellsnes. „Fyrst var þetta bara leikhús og ég var að gera sýningar mjög reglulega en fyrir um þremur árum keypti ég húsið og gerði það upp,“ segir Kári en húsið er gamalt frystihús.

Með auknu plássi kom hugmyndin að gistiheimilinu sem að hefur síðan þá notið mikilla vinsælda, þangað kemur bæði fólk sem vill sjá leikhúsið og vera á tónleikunum en það er líka staður fyrir listamenn til að koma og vera með vinnustofur. Kári segir ferðamenn jafnt sem heimamenn koma á sýningar og þá komi þangað fólk af öllu landinu, enda er staðurinn aðeins í tveggja og hálfs klukkutíma akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Núna er fjórða leikárið að fara af stað og það er pökkuð dagskrá næstu þrjá mánuðina, viðburður á hverju kvöldi, hvort sem það er leikhús, tónleikar eða eitthvað annað.

Hægt er að fylgjast með Frystiklefanum á Instagram og finna allar upplýsingar um sýningar og fleira á bæði Facebook og á heimasíðu hans. 

Kári var gestur í Núllinu og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.