Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Suðurnesjalína II á áætlun

10.03.2016 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Undirbúningur hjá Landsneti vegna Suðurnesjalínu II heldur áfram og er áætlað að framkvæmdir hefjist á næstu vikum. Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í síðustu viku að Landsnet fengi ekki yfirráð yfir fjórum jörðum vegna framkvæmdanna en dómsmál vegna sömu jarða verður flutt í Hæstarétti 20 apríl.

Samkvæmt svörum frá Landsneti hefur engin ákvörðun verið tekin um að fresta framkvæmdum þrátt fyrir úrskurðina og er áætlað að framkvæmdirnar hefjist á næstu vikum.

Þórður Bogason, lögfræðingur Landsnets, segir öll leyfi gild og undirbúningur í samræmi við það. Hann segir mjög líklegt að úrskurðir Héraðsdóms Reykjaness verði kærðir til Hæstaréttar og því hefur endanlega niðurstaða ekki fengist í það mál. Línan liggur aðeins að hluta til um jarðirnar fjórar sem um ræðir.

Suðurnesjalínu II er ætlað að rísa við hlið Suðurnesjalínu I. Krafa landeigenda á fjórum jörðum hefur hins vegar verið sú að línan verði lögð í jörðu. Ákvörðun um eignarnám vegna lagningu línunnar var tekin í febrúar 2014. Landeigendurnir jarðanna fjögurra, eða tveggja jarða og eigendur hluta tveggja annarra, kærðu þá ákvörðun. Héraðsdómur staðfesti ákvörðunina um eignarnámið í júní 2015. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar og hefst málflutningur þann 20.apríl.

Verði dómi héraðsdóms snúið er óvíst nákvæmlega hvaða áhrif það hefur á framkvæmdir.