Stytturnar lifnuðu við

Mynd með færslu
 Mynd:

Stytturnar lifnuðu við

18.05.2014 - 20:09
Stytturnar í garði Einars Jónssonar lifnuðu við í stundarkorn í dag þegar ungir listamenn lögðu garðinn undir sig. Listfræðinemar úr og listamenn leiddu saman hesta sína til að skapa búa til lifandi listasafn.

Fjöldi fólks lagði leið sína í garðinn til að fylgjast með hópi listamanna blása lífi í stytturnar með því að fremja gjörninga, flytja hljóðverk og setja upp skúlptúra. „Þetta er samstarfsverkefni á milli listfræðideildar Háskóla Íslands og myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Sýningin er sett upp í tenslum við námskeið sem heitir Sýningagerð og sýningastjórnun. Eitt af verkefnunum í þeim kúrsi er að setja upp sýningu með myndlistarmönnum sem við völdum öll og þetta er afraksturinn,“ segir Elísabet Alma Svendsen, einn skipuleggjenda. 

Öll skynfæri fengu eitthvað fyrir sinn snúð á sýningunni og á meðal verka var gjörningurinn Viðburður ehf., sem að sögn Nikulásar Stefáns Nikulássonar listamanns var alls ekkert gamanmál. „Þetta er aðallega mikil pappírsvinna, þegar maður er að reka fyrirtæki. Þetta er ekkert grín. Við erum með kennitölu, þannig að mest vinna fer fram í kringum það að reka fyrirtækið. Svo koma viðburðirnir svolítið sjálfkrafa.“

Breytir dauðu í líf

Listakonan Sunneva Ása Weisshappel sótti innblástur í verk Einars, Natura Mater eða Móðir Náttúra. Sunneva, í hlutverki guðlegrar móðurímyndar, var borin á börum gegnum garðinn meðan hún gaf brjóst. „Það sem kannski skiptir mestu máli er að móðir náttúra sýnir engar tilfinningar. Hún bæði gefur og drepur, enda er þetta mjög dramatískt verk sem Einar Jónsson gerir þarna 1904. Mig langaði til að prófa hvernig það væri að breyta einhverju sem er algjörlega dautt og fast í eitthvað sem er algjör andstæða, í eitthvað sem er á hreyfingu og lifir bara í örstutta stund, og þá kannski aðallega í minningum.“