Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Styttur sem stóðu af sér tímann

Mynd: Ruv myndir / Ruv myndir

Styttur sem stóðu af sér tímann

22.05.2018 - 16:50

Höfundar

Leitin að sannleikanum heitir sýning sem nú er hægt að sjá í Berg Contemporary við Klapparstíg. Þar sýnir Katrín Elvarsdóttir ljósmyndir sem hún tengir við eigið líf og uppvöxt.

Mundi eftir styttunum

„Titillinn, Leitin að sannleikanum, kemur frá manni sem hét Martinus Simson. Hann skrifaði mikið um andleg málefni og heimspeki,“ segir Katrín sem er fædd og uppalin á Ísafirði þó hún hafi flutt þaðan þegar hún var níu ára. „Þegar ég síðan kem þangað aftur þá er bærinn svo breyttur. Kirkjan hafði brunnið og ný byggð í staðinn. Gamla sjúkrahúsið var orðið safn og bókasafn og kominn nýr spítali í staðinn. Þetta var einhvern veginn ekki sami bærinn og ég þurfti þá að leita að hlutum úr minni æsku. Þar voru þessar styttur sem Simson gerði á sínum tíma bæði fyrir utan sundlögina og í Simson garðinum inn í Tungudal. Frá 1998 hef ég síðan verið að mynda þessar styttur hans.“

Merkur maður

Martinus Simson var stórmerkur maður. Auk þess að gera stytturnar sem Katrín hefur myndað þá var hann brautryðjandi í skógræktarmálum Ísfirðinga, smíðaði útvarpstæki og kenndi m.a. radíótækni um skeið við Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Hann var þó ljósmyndari að aðalstarfi, en lagði líka stund á listmálun, teikningu og höggmyndasmíð. En aðaláhugamál hans voru samt andleg vísindi.

„Á þessari sýningu eru bæði fyrstu myndirnar sem ég tók af styttum Simsons með plastmyndavél árið 1998 og þær hafa aldrei verið sýndar áður en síðan eru hér myndir sem ég hef verið að taka á síðustu árum af verkunum með sýningu í huga,“ segir Katrín. „Það er flókið að útskýra hvað heillar mig við þær en þetta liggur rosalega djúpt í mér og hefur fylgt mér. Mér fannst áhugavert að reyna að persónugera þetta, sýna verkin eins og lifandi fólk í landslagi. Það er óljóst hvar maður er staddur og þá verður þetta meira eins og fantasía eða eitthvað land sem er ekki til.“

Katrín Elvarsdóttir er eigandi - notað í tengslum við sýningu hennar maí 2018
 Mynd: Katrín Elvarsdóttir
Katrín velur myndramma þannig að stytturnar birtast sem persónur í staðleysu.

Gististaðir og tunglmyrkvi

Í öðrum myndum á sýningunni hefur Katrín ljósmyndað náttstaði sína. „Aftur getur þú ekki séð á myndunum hvar þær eru teknar. Þessir gististaðir mínir eru því teknir úr samhengi. Sýningin tengist því öll mér persónulega.“

Í einu ljósmyndaverkinu til viðbótar á sýningunni má fá óvenjulega sýn á tunglmyrkva. „Ég tók mynd af skugga sem varpaðist á vegg en í honum mátti sjá myrkvan sjálfan eins og koma í gegnum plöntuna. Ég var tilbúin þegar myrkvinn kom og prófaði ýmislegt.“

Viðtalið við Katrínu Elvarsdóttur úr Víðsjá má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Tónlistin kemur úr smiðju Erics Satie.

Katrín Elvarsdóttir er eigandi - notað í tengslum við sýningu hennar maí 2018
 Mynd: Katrín Elvarsdóttir
Myndir Katrínar af náttstöðum sínum bera með sér ljóðrænan blæ.

Tengdar fréttir

Myndlist

Pottaplöntur og breytt náttúruskynjun

Myndlist

Ég er ekki fræðimaður, ég vinn á innsæinu

Myndlist

Hvískur og öskur í Listasafni Íslands

Hönnun

Sveppablek og sjálfshönnun