Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Styttum skákað til eftir tíðaranda

22.08.2017 - 19:24
Deilur um minnismerki, eins og átökin um styttur manna úr Þrælastríðinu í Bandaríkjunum, má túlka sem mótmæli gegn ákveðnum persónum, eða þeim hugmyndum sem þær stóðu fyrir. Þetta segir bókmenntafræðingur sem fjallað hefur um merkingu táknmynda af þessu tagi. Hér á landi hefur styttum verið skákað til, eftir því sem tíðarandinn breytist.

Óeirðirnar í Charlottesville fyrir rúmri viku spruttu upp þegar þjóðernissinnar og nýnasistar vildu mótmæla því að stytta af Robert E. Lee, yfirhershöfðingja í her Suðurríkjanna í Þrælastríðinu á nítjándu öld yrði tekin af stalli sínum. Merking og afstaða til hennar hefur þannig breyst í áranna rás og það gerist yfirleitt með minnismerki sem komið er fyrir á almannafæri, segir Kjartan Már Ómarsson, bókmenntafræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands. 

„Það er nokkuð sjálfsagt fyrir einstakling sem býr við einhvers konar ofríki, hvort sem það er hugmyndafræðilegt eða líkamlegt sem er þá í þessu tilfelli þarna að það sé pirrandi að vera minntur á þessar hugmyndir dags daglega þegar þú gengur fram hjá þeim,“ segir Kjartan. 

Mótmælin má túlka á ýmsa vegu

Þetta er að líkindum kveikjan að því að styttur eins og sú af Lee hafa víða verið fjarlægðar í Bandaríkjunum. Stundum eru styttur einræðisherra brotnar niður um leið og þeim hefur verið steypt af stóli, líkt og gerðist í Írak, þegar Saddam Hussein hrökklaðist frá völdum. 

„En hins vegar líka er hægt að túlka þetta sem árásir, ekki á einstaklinginn per se, heldur á þær hugmyndir sem hafa verið spyrtar við styttuna sem væri þá í þessu tilfelli verið að ráðast á hugmyndina um rasisma sem slíkan. Svo mætti líka túlka þetta sem svo að það er verið að ráðast gegn þeim umboðsmönnum þekkingarinnar og þeim í stjórnarfyrirkomulaginu sem koma þá táknmyndum sem hafa þennan boðskap fyrir í opinberu rými.“

Styttum líka skákað hér á landi

Umræða af sama toga hefur átt sér stað hér á landi, þó hún hafi verið öllu friðsamari. Besta dæmið er á Austurvelli, þar sem styttu af dansk-íslenska myndhöggvaranum Bertel Thorvaldsen var skipt út fyrir styttuna af Jóni Sigurðssyni.  Það gerðist árið 1931. 

„Á þeim tíma voru Íslendingar náttúrulega í sjálfstæðisbaráttu,“ segir Kjartan. „Þá þótti það nær vitund þjóðarinnar og þeim hugmyndum sem hún vildi standa fyrir að hafa Jón Sigurðsson fyrir framan Alþingi, heldur en einhvern mann sem var hálf-danskur.“
„Svona táknmynd nýlendukúgaranna?“
„Táknmynd nýlendukúgaranna já, sem í sama tilfelli gerir það athyglisvert afhverju danska krúnan er enn uppi á þaki á Alþingishúsinu.“

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV