Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Styttri vinnuvika og færri veikindadagar

07.02.2018 - 19:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veikindadögum starfsfólks á leikskóla í borginni fækkaði um rúmlega fjörutíu prósent eftir að vinnuvikan var stytt. Stefnt er að því að í vor vinni fjórðungur starfsfólks borgarinnar færri stundir á viku.

Tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og BSRB um styttingu vinnuvikunnar hefur leitt til meiri framleiðni og aukinnar starfsánægju á flestum vinnustöðum sem tekið hafa þátt. 

Vinnuvikan hefur verið óbreytt í 40 stundum frá árinu 1971 þegar lög um það voru sett. Í mars 2015  fóru Reykjavíkurborg og BSRB af stað með tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar um einn til fjóra tíma á viku, án launaskerðingar, og í dag voru svo kynnt áform um að stækka verkefnið. Stefnt er að því að í vor vinni fjórðungur alls starfsfólks borgarinnar færri tíma á viku.

Fleiri gæðastundir með fjölskyldunni

Styttingin hefur gefið góða raun og veikindadagar eru til dæmis færri. Þar kemur leikskólinn Hof einstaklega vel út þar sem veikindafjarvistum hefur fækkað um fjörtíu prósent. Tveir deildarstjórar þar segjast nýta tímann til gæðastunda með fjölskyldunni. 

 „Við getum nýtt tímann til þess að læra saman, til þess að gera eitthvað saman yfir daginn. Ekki alltaf seinni partinn þegar allir eru orðnir þreyttir og þessi álagstími á heimilunum er oftast, þannig þetta er að nýtast okkur mjög vel,“ segir Erna Georgsdóttir, tómstunda - og félagsmálafræðingur á leikskólanum Hofi. 

Gróa Sigurðardóttir, samstarfskona hennar, tekur í sama streng. 

„Já það er ótrúlegt að þrír fjórir tímar aukalega, svona á miðjum degi geta gert gæfumuninn,“ segir hún.

Þær eru ánægðar með að haldið verði áfram með verkefnið, þrátt fyrir að einhverjir hafi í upphafi verið efins um fyrirkomulagið. 

„Ég fékk svona tilfinningu að ég væri bara hætta ef þetta yrði tekið af okkur. Ég átti reyndar ekki von á því. Það yrði frekar fáránlegt að hætta tilraunaverkefni sem gengur vel,“ segir Gróa.

„Það er töluvert minna um veikindi hjá okkur þannig að það hefur líka verið að skila sér, fólk er meira í vinnunni. Það eru margir jákvæðir punktar í þessu,“ bætir Erna við.