Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Styttist í framkvæmdir við ásatrúarhof

05.01.2015 - 19:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdir við nýtt hof Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð hefjast í næsta mánuði. Allsherjargoði segir að þetta sé fyrsta höfuðhof ásatrúarmanna á Norðurlöndum í þúsund ár.

Ásatrúarfélagið fékk úthlutað lóð í Öskjuhlíð Í Reykjavík árið 2006 undir starfsemi sína. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í næsta mánuði við hof félagsins. Um leið verður tekinn grunnur að félagsheimili sem stefnt er að byggja eftir 10 ár. Hofið sjálft verður hvelfing, að hluta niðurgrafin, um 350 fermetrar og mun rúma um 250 manns. 

„Síðla sumars eða haust á næsta ári, þá ætti að fara fram hérna mikil og falleg opnunarhátíð", segir Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði.

Í hofinu munu fara fram blót og ýmsar helgiathafnir, svo sem nafngjafir, siðfesta, hjónavígslur og útfarir. Þá verða haldnir tónleikar og ýmsar sýningar tengdar ásatrú. 

„Við erum að byggja í kringum sólarganginn, erum að leiða ljós inn í hvelfinguna eða helgidóminn sem endurspeglar gang ársins og endurspeglar árstíðir í stóra samhengingu er þetta örheimsmynd af tilvistinni sem er sífellt að endurnýja sig", segir Hilmar.

Um 2.400 manns eru skráðir í Ásatrúarfélagið. Áætlaður byggingakostnaður við hofið er um 130 milljónir króna og á félagið fyrir framkvæmdunum. Í haust var hof tekið í notkun í Skagafirði, en þetta verður svokallað höfuðhof og þau eru ekki á hverju strái.

„Í Norður-Evrópu hefur ekki staðið hof síðan hofið í Uppsölum í Svíþjóð var byggt 1070, þannig að þetta er heimssögulegur viðburður", segir Hilmar.