Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Styttist í Drekasvæðið

24.04.2015 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd: Kristófer Dignus - Drekasvæðið
Nú styttist í að Drekasvæðið hefji göngu sína á RÚV. Drekasvæðið er ný gamanþáttaröð, framleidd af Stórveldinu fyrir RÚV, sem fyllir skjái landsmanna þann 1. maí. Þetta eru sex rammíslenskir þættir sem hafa það að yfirlýstu markmiði að láta þjóðina flissa í buxurnar.

Þættina skrifa þeir Ari Eldjárn og baggalútarnir Bragi Valdimar og Guðmundur Pálsson. Leikstjórinn Kristófer Dignus stýrir þeim og fjölskipuðu leikaraliði gegnum súrt og sætt, en helstu leikarar eru þau Saga Garðars, María Heba, Hilmar Guðjóns, Birgitta Birgis, Nanna Kristín og Pétur Jóhann. Þá skjóta vel valdir gestaleikarar upp kolli þegar minnst varir. 

Óhætt er að lofa góðri skemmtun í þessum nýju þáttum, sem vonandi kitla sem flestar hláturtaugar. Ekki missa af góðlátlegu gríni, frumstæðum fíflagangi og vel ígrundaðri vitleysu á föstudagskvöldum á RÚV frá og með 1. maí.