Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Styttan afhjúpuð við Alþingi

19.06.2015 - 16:41
Mynd með færslu
Ingibjörg H. Bjarnason stendur nú við inngang Alþingishússins. Mynd: RÚV
Stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason var afhjúpuð við hátíðlega athöfn fyrir utan Alþingishúsið í dag.

Ingibjörg H. Bjarnason var fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi. Hún var kjörin á Alþingi árið 1922 fyrir sérstakan kvennalista. Hún sat á Alþingi til ársins 1930, fyrir kvennalistann, en síðar fyrir Íhaldsflokkinn sem síðarmeir varð að Sjálfstæðisflokknum.

Styttan af Ingibjörgu er fyrsta styttan af nafngreindri konu í fullri líkamsstærð sem rís í Reykjavík. Hún er unnin af Ragnhildi Stefánsdóttur, myndhöggvara.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi Forseti Íslands flutti ávarp við athöfnina. „Þótt svo eigi að heita að jafnrétti kynja á Íslandi hafi náðst með lögum, vitum við að talsvert vantar upp á að jafnrétti ríki í raun. Enn er langt í land að konur hafi sömu laun og karlar, þrátt fyrir þá staðreynd að lög sem áttu að tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu hafi verið í gildi í fjóra áratugi,“ sagði Vigdís við athöfnina.

Ennfremur flutti Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ávarp. „Nú þegar við höldum kvenréttindadaginn hátíðlegan er eðlilegt að hugurinn reiki til þeirra fjölmörgu kvennasem ruddu brautina í jafnréttismálum í upphafi síðustu aldar. Ein þessara kvenna var Ingibjörg H. Bjarnason,“ sagði hann. „Þau átta ár sem Ingibjörg sat á þingi var hún eina konan á þinginu og allan þann tíma var hún ötul í baráttu sinni fyrir bættum réttindum kvenna,“ sagði Einar og bætti við: „Það er fyrir löngu orðið tímabært að við heiðrum minningu þessarar baráttukonu með sómasamlegum hætti.“

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV