Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stytta bótatímabil atvinnulausra um hálft ár

20.04.2017 - 17:21
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Bótatímabil vegna atvinnuleysis verður stytt úr tveimur og hálfu ári í tvö ár samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að atvinnulausir fái aukna aðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir breytinguna vera mikla afturför.

Áform um styttingu bótatímabils eru kynnt í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta er í annað sinn á þremur árum sem bótatímabilið er stytt um hálft ár. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra, segir að atvinnutryggingagjald verði stillt af þannig að hvorki þurfi að hækka það eða lækka að ráði í vaxandi eða minnkandi atvinnuleysi. Jafnframt verði bótatímabilið sveigjanlegt eftir því hvernig atvinnuástandið í landinu er.

Mjög lítið atvinnuleysi

„Núna er það auðvitað svo að atvinnuástandið er mjög gott, atvinnuleysi ákaflega lítið og þess vegna ástæðulaust að vera með atvinnuleysisbótatímabil mjög langt við slík skilyrði,“ segir Þorsteinn. Slíkt geti verið hættulegt því það séu talsverð tengsl milli nýgengi örorku og langvarandi fjarveru frá vinnumarkaði. Hætt sé við að fólk festist of lengi inni á atvinnuleysisbótum, sérstaklega í góðu atvinnuástandi.

„Þar af leiðandi er ástæða til þess að stytta bótatímabilið frá því sem verið hefur. Þarna er boðað að bótatímabilið verði stytt í tvö ár sem engu að síður er mjög langur tími, sérstaklega þegar horft er til þess að atvinnuleysi núna er í kringum þrjú prósent. Sem þýðir að það á að vera hægur leikur að fá vinnu um þessar mundir.“

Á sama tíma verður lögð áhersla á það að finna úrræði fyrir atvinnuleitendur. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar segir um þetta: „Markmiðið er að veita einstaklingsmiðaða þjónustu við fólk í atvinnuleit fyrr en verið hefur en til þess þarf að fjölga ráðgjöfum hjá Vinnumálastofnun sem liðsinna og aðstoða fólk í atvinnuleit eins fljótt og kostur er. Þar hefur ekki síst þýðingu að reynslan hefur sýnt að fólki reynist mun erfiðara að finna starf eftir því sem lengri tími líður frá virkni á atvinnumarkaði. Þá hefur þýðingu að ástand á atvinnumarkaði er sem stendur er afar gott, en gera má ráð fyrir að tímabil sem atvinnuleysisbætur verða greiddar út verði aftur lengt verði breyting á atvinnuástandi og við aðstæður sem gera þarf ráð fyrir að atvinnuleit taki lengri tíma.“

Alvarleg aðför að launafólki

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir áformunum og segir þau alvarlega aðför að grundvallarréttindum launafólks. „Við höfum ekki heyrt það áður að það standi til að skerða réttindi atvinnuleitenda, stytta bótatímabilið niður í 24 mánuði eða tvö ár. Við vorum mjög ósátt við það þegar það var stytt úr þremur árum í tvö og hálft. Þetta er mjög mikil afturför,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Bótatímabilið var þrjú ár eftir hrun en var stytt í tvö og hálft ár árið 2014.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV