Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Stytta bótatímabil atvinnulausra

10.09.2014 - 07:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöld hyggjast stytta þann tíma sem fólk án vinnu geta fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Í bandormi sem fylgir fjárlagafrumvarpinu og lagður var fram á Alþingi í gær kemur fram að stytta eigi atvinnuleysistímabil úr þremur árum í tvö og hálft ár.

Áætlað er að þessi breyting spari ríkissjóði 1.130 milljónir króna á næsta ári. Breytingin á að taka gildi um áramót. Frá og með þeim tíma fær fólk ekki lengur greiddar bætur hafi fólk þegið atvinnuleysisbætur í þrjátíu mánuði eða lengur.

Atvinnulausir gátu þegið bætur í fimm ár til ársins 2006 þegar bótatímabilið var stytt í þrjú ár. Það var lengt í fjögur ár til að bregðast við aðstæðum eftir hrun en stytt í þrjú ár á ný þegar atvinna jókst á ný. Fram kemur í skýringum með frumvarpinu að bótatímabil atvinnuleysisbóta er eitt til tvö ár annars staðar á Norðurlöndum. Þó eru sérreglur í Finnlandi og Danmörku sem geta lengt bótatímabil ákveðinna hópa.