Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Styrkjasérfræðingur til bjargar kútter

25.10.2013 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Byggðasafnsins í Görðum á Akranesi íhugar að ráða styrkjasérfræðing til starfa í von um að bjarga Kútter Sigurfara frá eyðileggingu. Skipið, sem er eitt af einkennum Akraness, liggur undir skemmdum á safnasvæðinu.

Skagamenn hafa síðustu misseri leitað leiða við að fjármagna viðgerð en enn án árangurs. Meðal þeirra hugmynda sem eru ræddar er að ráða einhvern sem er sérfróður um styrkbeiðnir og -veitingar. Verkefni viðkomandi væri þá að kortleggja þá styrki sem hægt væri að sækja um erlendis og útbúa umsóknir um styrki. Skagamenn óskuðu í fyrra eftir aðkomu ríkisins en fengu ekki fjárveitingu á fjárlögum yfirstandandi árs.

„Í mínum huga er komið að því núna að við þurfum að hrökkva eða stökkva," segir Hjördís Garðarsdóttir, formaður stjórnar Byggðasafnsins, um skemmdirnar á Kútter Sigurfara. Vonir standa til að hægt verði að byggja bráðabirgðahúsnæði yfir Kútter Sigurfara, þar sem unnið yrði að viðgerð skipsins. Fyrr á þessu ári var áætlað að slík bygging myndi kosta 113 milljónir. Þá var miðað við að nota mætti bráðabirgðahúsnæðið sem grunn að endanlegu sýningarhúsnæði. Hjördís segir að áherslur myndu breytast ef þetta yrði að veruleika. Nú sé Kútter Sigurfari sýningargripur en sjálf viðgerðin yrði meginatriði sýningarinnar ef af verður. Þá gætu gestir safnsins fylgst með viðgerðinni og kynnst þeim vinnubrögðum sem beitt er við slíka viðgerð. Það passi vel við þá framtíðarsýn að safnið byggi á handverki. Sú framtíðarsýn birtist einnig í því að eldsmiðja var reist við safnið í sumar og þar var haldið Norðurlandamót eldsmiða.