Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Styrkja verslun í Norðurfirði um 7,2 milljónir

28.02.2019 - 06:58
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Rúv
Byggðastofnun ætlar að styrkja verslunarverkefni á sex strjálbýlum svæðum. Alls eru gefin fyrirheit um styrki að upphæð 25,7 milljónum króna á árunum 2018-2021.

Í frétt á vef Byggðastofnunar segir að með framlögunum eigi að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar.

Stærstan styrk fær Árneshreppur eða 7,2 milljónir fyrir árin 2019-2021. Þar verður verslun í Norðurfirði styrkt en kaupfélagið þar lokaði síðasta haust. Stofna á félag um rekstur verslunarinnar þar og veita lágmarksþjónustu að vetrinum og opna daglega á sumrin.

Morgunblaðið segir frá frétt á vef Byggðastofnunar í dag.

Framlög Byggðastofnunar vegna verslunar í strjálbýli eiga, að því er segir í frétt stofnunarinnar, að koma til með að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann. Það verði meðal annars gert með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu.

Önnur verkefni sem fá styrk til reksturs verslana eru til dæmis Hríseyjarbúðin ehf, sem fær 6,3 milljónir til reksturs verslunar í Hrísey, Verslunin Urð ehf, sem fær 5,5 milljónir svo tryggja megi áframhaldandi verslun á dagvöru í Raufarhöfn.

Árneshreppur , Kaupfélag Norðurfjarðar, vestfirðir, Strandir.
Útibú Kaupfélags Steingrímsfjarðar sem hefur nú verið lokað Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

 

Allir styrkir Byggðastofnunar til verslunar í strjálbýli

  • Gusa ehf. hlýtur styrk að upphæð 1.000.000 kr. vegna Búðarinnar Borgarfirði. Verslunin opnaði síðasta sumar. Fullgera á húsnæði og auka þjónustu. Gera á þjónustukönnun, fá rekstrarráðgjöf og halda námskeið með það að markmiði að auka þekkingu starfsfólks.
  • Árneshreppur hlýtur styrk að upphæð 7.200.000 kr. fyrir árin 2019-2021 vegna Verslunar í Norðurfirði í Árneshreppi. Verslunin í Norðurfirði hefur verið lokuð frá því haustið 2018. Stofna á félag um reksturinn og opna á verslunina á ný með lágmarksþjónustu að vetrinum og opið daglega að sumrinu.
  • Hríseyjarbúðin ehf. fær styrk að upphæð 6.300.000 kr. fyrir árin 2019-2021 vegna Verslunar í Hrísey. Frá árinu 2015 hefur matvöruverslunin verið í eigu 52ja hluthafa. Þar er fjölbreytt þjónusta, auk sölu á matvöru er bankaþjónusta, pósthús og kaffiveitingar. Verslun á staðnum eykur búsetugæði.
  • Kaupfélag Steingrímsfjarðar hlýtur styrk að upphæð 3.300.000 kr. vegna Strandakjarna í Hólmavík. Byggja á KSH upp sem þjónustukjarna og verður gerð þarfa- og kostnaðargreining. Koma á í veg fyrir að verslun leggist af, auka samkeppnishæfni, skapa atvinnu og bæta búsetuskilyrði.
  • Verslunin Urð ehf. fær styrk að upphæð 5.500.000 kr. fyrir árin 2018-2019 vegna verkefnisins Raufarhöfn til frambúðar. Tryggja á áframhaldandi verslun á dagvöru á Raufarhöfn. Urð er eina verslunin þar, starfrækt frá árinu 1995. Laga á aðkomu og aðstöðu og setja upp kaffihorn og salernisaðstöðu.
  • Kríuveitingar ehf. hljóta styrk að upphæð 2.400.000 kr. vegna verkefnisins Verslunarrekstur í Grímsey. Markmiðið er að tryggja að áfram verði verslun í Grímey. Halda á versluninni opinni allt árið um kring, þjónusta ferðamenn og bjóða íbúum eyjarinnar upp á helstu nauðsynjar í heimabyggð.