Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Styrkja uppbyggingu á Vínlandssetri í Búðardal

Mynd með færslu
Leifsbúð Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV

Styrkja uppbyggingu á Vínlandssetri í Búðardal

01.11.2017 - 13:46

Höfundar

Vínlandssetri í Búðardal, að fyrirmynd Landnámssetursins í Borgarnesi, hefur verið úthlutað 40 milljónum frá tveimur ráðuneytum. Sveitarstjóri Dalabyggðar vonast til að setrið verði segull fyrir sveitarfélagið sem glímir við fólksfækkun og skort á atvinnutækifærum.

 

Sveitarfélagið átt undir högg að sækja

Dalabyggð hefur átt undir högg að sækja vegna fólksfækkunar og samdráttar í atvinnulífnu. Þá hefur ferðamennskan ekki rutt sér til rúms í Búðardal. Sveinn Pálsson, er sveitarstjóri í Dalabyggð: „Okkur finnst kannski dálítið vanta uppá að við njótum þessarar aukningar í ferðamannastraum til landsins. Það hefur skilað sér á Vesturland að einhverju leyti, til dæmis á Snæfellsnes. En við teljum okkur þurfa að fá meiri hlutdeild í því og við sjáum þetta sem stóran hluta í því. Lítum á þetta sem nýjan segul í ferðaþjónustunni.“ Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytirð hafa samtals úthlutað 40 milljónum til Vínlandssetursins í formi viðaukasamningis við sóknaráætlun Vesturlands. Það byggir á aðgerðaáætlun vegna íbúafækkunar í Dalabyggð og áherslum sóknaráætlunar Vesturlands og er verkefninu ætlað að treysta byggð í sveitarfélaginu.

Sýning um landafundi

Vínlandssetrið verður í Leifsbúð við höfnina í Búðardal og á sér fyrirmynd í Landnámssetrinu í Borgarnesi og en verkefnið er samstarfsverkefni Dalabyggðar og Eiríksstaðanefndar auk aðstandenda Landnámsseturs í Borgarnesi. Sveinn segir að verkefnið hafi verið í farvatninu í 17 ár, nú séu næstu skref að fjármagna það að fullu en undirbúningur að sýningunni er þó hafinn. Sýningin fjallar um landafundasögu Eiríks rauða og Leifs heppna, um landnám á Grænlandi og tilraun til landnáms á Vínlandi í Ameríku en Eiríkur er talinn hafa búið í Haukadal í Dalabyggð. „Við teljum að þetta efni geti verið áhugavert fyrir bæði ferðamenn og íslendinga líka og á þann orðið til þess að þess að fleiri telji sig eiga erindi í Dali og að ferðaþjónustan geti dafnað í kringum það sem og annað mannlíf,“ segir Sveinn.