Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Styrking krónunnar komin að þolmörkum

15.03.2018 - 22:22
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Íslenska krónan hefur styrkst það mikið, að komið er að þolmörkum. Þetta segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Krónan gæti þó haldið áfram að styrkjast.

Íslenska krónan hefur styrkst mikið undanfarin misseri. Í dag kostar dollarinn til dæmis tæpar eitt hundrað krónur, en hann hefur veikst töluvert gagnvart krónunni undanfarna mánuði. Þessi sterka staða krónunnar kemur sér vel fyrir heimilin í landinu, enda ódýrara að fara til útlanda og ódýrara að kaupa vörur erlendis frá. Þessi staða gerir hins vegar útflutningsfyrirtækjum erfiðara fyrir, til dæmis fyrirtækjum í ferðaþjónustu og fyrirtækjum í sjávarútvegi.

„Þetta hefur þau áhrif að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja versnar, það er að segja að okkar vörur, innlendar vörur, verða dýrari í verði gagnvart erlendum aðilum eða kaupendum,“ segir Ásdís.

Hröð kólnun

Gengi krónunnar styrkist oftast yfir sumartímann, þegar ferðamönnum fjölgar og gjaldeyrisstraumur til landsins eykst. Ásdís bendir þó á að aðrir þættir gætu veikt hana á móti, til dæmis ef lífeyrissjóðir eða íslensk fyrirtæki fara með fjármuni úr landi. En ef krónan styrkist enn frekar í sumar segir hún að  samkeppnisstaða útflutningsgreina versni.

„Þó svo að við séum ekki beint að sjá það í hagtölum að krónan sé of sterk, við erum enn að skila viðskiptaafgangi, þá erum við að heyra og sjá merki þess efnis að við erum komin að ákveðnum þolmörkum. Sem dæmi má nefna að það er að hægja mjög hratt á fjölgun ferðamanna til landsins og við erum jafnframt að sjá mjög hraða kólnun í hagkerfinu. Þó svo að það sé enn hagvöxtur, þá er vöxturinn að minnka ansi hratt. Og þessi vöxtur er einkum og sér í lagi tilkominn vegna þess að það er að hægja á vexti útflutnings,“ segir Ásdís. „En eins og staðan er í dag er ennþá jafnvægi á stöðunni, en frekari styrking gæti grafið undan þeirri sterku stöðu sem uppi er um þessar mundir.“