Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Styrking krónu veldur áhyggjum í ferðaþjónustu

11.12.2016 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sterk staða krónunnar og gengissviptingar draga úr samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannastaðar. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Stjórnvöld verði að taka tillit til ferðaþjónustunnar í peningastefnu sinni.

Íslenska krónan hefur styrkst mikið undanfarna mánuði og hefur gengi hennar gangvart Bandaríkjadollara ekki verið sterkara síðan fyrir hrun. Áhrifa þessa gætir í ferðaþjónustunni og stefnir Ísland með hraðbyri upp lista yfir dýrustu áfangastaði heims. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir styrkingu krónunnar áhyggjuefni og draga úr samkeppnishæfni greinarinnar.

„Við teljum mjög mikilvægt að menn fari að trúa því að ferðaþjónustan sé komin til að vera og þess vegna þurfum við að taka tillit til hennar hvað varðar peningastefnuna. Líkanið þarf að ná utan um breyttan veruleika,“ segir Helga.

Hún bendir á að stjórnvöld hafi unnið eftir verðbólgumarkmiði um tvö og hálft prósent og verið undir því markmiði í samfleytt þrjú ár. Það sé hinsvegar ekki nóg og krónan þurfi að vera stöðugri, ætli ferðaþjónustan sér að nýta þau tækifæri sem felast í greininni til langs tíma. 

„Ég kalla eftir fyrirsjáanleika. Hann er mjög nauðsynlegur. Það gengur ekki fyrir útflutningsgreinarnar að búa í þessu sveiflótta hagkerfi.“ 

Helga segir ljóst að þótt Ísland verði aldrei ódýr áfangastaður, sé landið í gífurlegri samkeppni við svipaða áfangastaði.

„Auðvitað þegar verðin breytast hratt og mikið á skömmum tíma þá eru menn fljótir að fara annað.“

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður