Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Styður hugmyndir um sannleiksnefnd

24.08.2010 - 19:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðbjörg Jóhannesdóttir, formaður Prestafélags Íslands, styður hugmyndir um að komið verði á fót sérstakri sannleiksnefnd til að fjalla um meint kynferðisbrot Ólafs Skúlasonar fyrrverandi biskups.

Guðbjörg segir forystu þjóðkirkjunnar hafa brugðist í málinu og núverandi biskup þurfi að íhuga hvort hann njóti  trausts prestastéttarinnar og þjóðarinnar.

Þrjár konur sökuðu Ólaf Skúlason, þáverandi biskup Íslands, um kynferðislega áreitni á tíunda áratugnum og nýverið greindi dóttir hans frá því á kirkjuráðsfundi hvernig hann hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi frá unga aldri. Þrír sóknarprestar innan þjóðkirkjunnar hafa lýst því yfir opinberlega að þeir vilji að komið verði á fót óháðri sannleiksnefnd án aðkomu kirkjunnar sem fjalli um meint kynferðisbrot Ólafs og viðbrögð kirkjunnar. Formaður Prestafélagsins tekur í sama streng.

Guðbjörg segir mikið verk óunnið hjá þjóðkirkjunni við að endurheimta traust þjóðarinnar sem nú súpi seyðið af því hvernig kirkjan hefur tekið á málunum.