Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Styðja við og efla stelpurokk í Tógó

Mynd með færslu
 Mynd: Stelpur Rokka/Tógó - Stelpur rokka

Styðja við og efla stelpurokk í Tógó

22.07.2018 - 16:12

Höfundar

Rokkbúðirnar Stelpur rokka og félagssamtökin Sól í Tógó standa að söfnun til uppbyggingar tónlistarstarfs í Tógó. Fulltrúi Stelpur rokka á Íslandi segir að þetta séu mögulega fyrstu rokkbúðirnar af þessu tagi í Vestur-Afríku. Almenningur í Tógó hefur jafnan engan aðgang að tónlistarnámi en landið er mjög fátækt.

Safnað er fyrir rokkbúðum fyrir stelpur en þær hafa verið starfræktar þrjú ár í röð og leiddar af þjóðþekktri tónlistarkonu í Tógó, Mirlindu Kuvakui. „Hún er ótrúlega flott fagkona í Tógó sem hefur raðað í kringum sig alveg geggjuðum tónlistarkonum og aktívistakonum í Tógó sem brenna allar fyrir því að styðja stelpur í tónlist,“ segir Áa Einarsdóttir, fulltrúi og starfskona Stelpur rokka hér á landi, í samtali við Menningarvef RÚV. „Hún er búin að búa til rosa flott samtök í kringum þetta verkefni.“ Áa bætir við að starfinu í Tógó sé eingöngu haldið uppi af íslensku rokkbúðasamtökunum og Sól í Tógó.

Tónlistarnám eingöngu fyrir elítuna

Áa segir að Tógó sé mjög fátækt land. Þó sé stöðugt stjórnmálaástand í landinu, en þar situr einræðisstjórn. „Það er ekki mikið um tómstundainnviði fyrir ungt fólk. Það er enginn tónlistarskóli sem við vitum af sem er starfræktur í Tógó, sem fólk sem er ekki elíta hefur efni á að senda börnin sín í,“ segir hún.

Hún segir að eina tónlistarstarfið sem stúlkur í Tógó eiga kost á að komast í tæri við sé í kirkjunum. Þó er söngstarf mjög öflugt og mikið sungið bæði í skólum og kirkjum. „Það er mikil tónlistarorka hjá þessum stelpum en það vantar að gefa þeim rými til að æfa sig á hjóðfæri og gefa þeim tækifæri til að læra af tónlistarkonum, en það eru fáar tónlistarkonur starfandi í Tógó,“ segir Áa. Hún bendir á máli sínu til stuðnings að fyrsta árið sem rokkbúðirnar voru starfræktar hafi kennararnir í rokkbúðunum verið meðlimir í einu kvennahljómsveitinni í landinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Stelpur Rokka/Tógó - Stelpur rokka

Ógleymaleg heimsókn til Tógó

Fyrsta árið fóru fulltrúar frá Sól í Tógó og Stelpur rokka í heimsókn í rokkbúðirnar úti. Þá höfðu þær safnað hljóðfærum á Íslandi til þess að koma starfinu á laggirnar. Áa segir að heimsóknin hafi verið ógleymanleg en þátttakendur í búðunum hafi spilað meira og minna allan sólarhringinn í heila viku. „Þær sváfu ekkert, þær voru svo upptjúnaðar og byrjuðu að spila á trommurnar fyrir klukkan átta á morgnana.“ Aðspurð segir Áa að íslensku gestirnir hafi einnig sofið lítið í ferðinni, „en það var bara út af öllum leðurblökunum,“ segir hún og hlær.

Í haust fara þriðju rokkbúðirnar í gang og hefur Kuvakui nýtt hljóðfærin frá Íslandi með því að halda úti vetrartónlistarstarfi, sem er starfrækt í tónlistarmiðstöð sem opin er nokkra daga í viku yfir vetrartímann. „Hún gerir svo mikið fyrir lítinn pening og það er magnað hvað starfið hjá henni er að blómstra.“

Mynd með færslu
 Mynd: Stelpur Rokka/Tógó - Stelpur rokka

Dýrmætt að eignast fyrirmyndir í tónlistinni

Aðgengi að rokkbúðum gagnast tógóskum stelpum á marga vegu. Stúlkurnar sem sækja rokkbúðirnar eru á aldrinum 12-20 ára en Áa segir að það sé dýrmætt fyrir þær að fá stuðning og einnig að eignast fyrirmyndir í tónlist. Hún segir að venjan sé að þegar tógóskar konur séu búnar að mennta sig gangi þær í hjónaband. „Tækifærin til að huga að sínum eigin hæfileikum eru svo ótrúlega fá. Það er flókið fyrir þær að mennta sig til að vinna að sínum áhugamálum,“ segir hún.

Söfnunin á Íslandi fer meðal annars fram í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið í ágúst, en þar ætla íslensku sjálfboðaliðarnir að hlaupa til styrktar rokkbúðunum í Tógó. „Við ætlum að bjóða fólki að hlaupa með okkur og líka að heita á okkur af því að allur peningurinn rennur beint í rekstrarkostnað rokkbúðanna í Tógó sem haldnar verða í september,“ segir Áa.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Tugir þúsunda krefjast afsagnar Tógó-forseta

Myndlist

Til stuðnings börnum í Tógó

Stjórnmál

Stjórnarflokkur Tógó endurkjörinn

Innlent

Ættleiðingar frá Tógó