Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Styðja aðgengi að öruggum fóstureyðingum

03.03.2017 - 11:31
Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritar forsetatilskipun, 24. janúar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti.  Mynd: EPA
Stjórnvöld á Íslandi og í fjölda annarra ríkja hafa heitið milljörðum króna til alþjóðasamtaka sem veita konum ráðgjöf um getnaðarvarnir og framkvæma meðgöngurof. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur bannað fjárveitingar til hjálparsamtaka sem veita slíka þjónustu. Íslendingar hafa þrefaldað framlög til mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) til að styðja við aðgengi að öruggum fóstureyðingum. Framlag Íslands hækkar í 300.000 dali - um 33 milljónir króna.

Meðal fyrstu embættisverka Donalds Trumps Bandaríkjaforseta var að innleiða að nýju bann við því að bandarísku skattfé verði varið til að styrkja samtök sem styðja eða bjóða upp á meðgöngurof.

Bandaríkin eru einn stærsti styrktaraðili alþjóðlegra hjálparsamtaka í heimi. Samtök sem ráðleggja konum varðandi meðgöngurof og aðrar leiðir til að skipuleggja fjölskyldustærð, geta orðið af stórum hluta þess fjármagns sem þau hafa reitt sig á. Bannið þýðir að færri konur eiga þess kost að binda enda á meðgöngu, auk þess sem erfiðara verður fyrir fólk að fá fræðslu um getnaðarvarnir, barneignir og kynsjúkdóma.

Ákvörðun Trumps var víða fordæmd. Í gær var haldin ráðstefna í Brussel með fulltrúum stjórnvalda yfir fimmtíu landa, undir yfirskriftinni „hún ræður“ eða „She Decides“. Þar hétu stjórnvöld hátt í hundrað milljónum dala – jafnvirði ellefu milljarða króna, í aðstoð við alþjóðasamtök sem veita ráðgjöf um getnaðarvernir í þróunarlöndum. Þar af hafa stjórnvöld í Svíþjóð og Finnlandi heitið hátt í fimm milljörðum króna.

Í frétt Guardian af málinu var haft eftir Isabellu Lövin, varaforsætisráðherra Svíþjóðar, að með þessu vilji Svíar láta í ljósi stuðning við réttindi kvenna. Aðgengi að getnaðarvörnum skipti lykilmáli í baráttunni við fátækt.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands hefur ákveðið að Ísland þrefaldi framlag sitt til mannfjöldasjóðs SÞ, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í dag. Þannig sé stutt við „aðgengi að öruggum fóstureyðingum sem er mikilvægt mannréttindamál og snýr ekki síst að rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Málaflokkurinn gegnir veigamiklu hlutverki í þróunarsamvinnu okkar“, segir í tilkynningu ráðuneytisins. Ísland styðji heilshugar frumkvæði Hollands, Belgíu, Svíþjóðar og Danmerkur sem kennt er við „She Decides“. Fulltrúi Íslands tók þátt í ráðstefnunni í gær. 

Bann líkt og Trump setti á, 23. janúar á þessu ári, var fyrst sett af Ronald Reagan, Bandaríkjaforseta og Repúblikana, árið 1984. Demókratinn Bill Clinton afnam það í forsetatíð sinni en George Bush, Repúblikani, kom því á aftur þegar hann varð forseti. Þegar Barack Obama, annar Demókrati, varð forseti 2009, afnam hann þetta bann aftur. Nú er það enn komið í gildi.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV