Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stuttmyndin unnin eftir verðlaunahandriti

Mynd með færslu
Bergþóra Snæbjörnsdóttir handritshöfundur Mynd: Karó Antonsen - Einkasafn

Stuttmyndin unnin eftir verðlaunahandriti

21.09.2017 - 14:40

Höfundar

Munda, stuttmynd eftir Tinnu Hrafnsdóttur hefur verið valin til þáttöku á aðalkeppni stuttmynda á kvikmyndahátíðinni í Varsjá, en hátíðin er með þeim virtustu í heiminum og hefur verið haldin árlega frá árinu 1985. Bergþóra Snæbjörnsdóttir skrifaði handritið í kjölfar sigurs í handritasamkeppni WIFT árið 2014.

Hátíðin í Varsjá mun fara fram dagana 13. -22. október nk. Kvikmyndin keppir í flokki stuttmynda, og er 18 mínútna löng. Segir sagan frá Mundu sem er ómannblendinn prestur á sjötugsaldri, en í fjörutíu ár hefur líf hennar litast af þráhyggju. En enn daginn er henni skyndilega gert að hætta störfum, og þegar tilvera hennar fer á hvolf öðlast hún óvæntan kjark til að horfast í augu við sjálfa sig.

Sigurvegari í Doris 2014

Handritið er eftir listakonuna Bergþóru Snæbjörnsdóttur, en hún tók þátt í og sigraði handritakeppninni Doris, sem haldin var á vegum WIFT (Félags kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi) árið 2014.  

„Hlutfall kvenna í kvikmyndagerð hefur auðvitað verið sláandi lágt, þó að það hafi verið að lagast undanfarin ár með aukinni vitundarvakningu og tilkomu WIFT á Íslandi,“ segir Bergþóra. „Því var haldið fram að konur hefðu bara minni áhuga, en í samkeppninni var óskað eftir tillögum að stuttmyndum frá konum, og það þurfti að vera kona í aðalhlutverki í sögunni. Það bárust hundrað og tvær tillögur í keppnina, sem er crazy og sýnir að áhugaleysi var ekki vandamálið.“

Bergþóra segir að hún hafi séð keppnina auglýsta rétt áður en umsóknarfresturinn rann út. „Ég hafði aldrei skrifað neitt fyrir kvikmyndir en ákvað í einhverri rælni að senda inn tillögu, ég átti tilbúna hugmynd sem ég notaði.“ Samkeppnin var nafnlaus í fyrstu til þess að tryggja að jafnræðis yrði gætt, en í framhaldinu valdi dómnefnd 12 handrit sem komust áfram.

Mynd: Freyja Filmwork / 

Upphaflega öðruvísi hugmynd

Næst var farið í þróun handritanna í nokkra mánuði, og miðað að því að hver höfundur væri með tilbúið handrit. Í lok verkefnisins voru fimm myndir valdar áfram til framleiðslu.

„Upphaflega hélt myndin Eikí Breikí Hjarta og átti að vera um konu sem fer á línudansnámskeið, en svo þurfti ég að endurskoða þá hugmynd og í samtali við Tinnu leikstjóra kom hugmyndin að ögn öðruvísi söguþræði, þó að persónan hafi haldið sér í megindráttum.“

Saga um þráhyggju

Sagan fjallar um þráhyggju og að vera ófær um að breyta aðstæðum sínum, „sem ég hef persónulega mikinn áhuga á,“ segir Bergþóra og hlær. Hún segir samstarf þeirra Tinnu Hrafnsdóttur hafa komið til vegna Dorisar-verkefnisins, en Dögg Mósesdóttir, einn framleiðenda, var viðriðin það verkefni og sýndi Tinnu handritið. „Í kjölfarið hafði Tinna samband við mig.“

Kvennaframleiðsla

„Verkefnið er með nokkrar reglur sem er bara, konur í öllum helstu stöðum: Kona skrifar, kona leikstýrir, kona framleiðir, kona sér um búninga og gervi, tónlist, myndatöku osfv.“ Yfirlýst markmið verkefninsins var að rannsaka og stuðla að fjölbreyttari kynjahlutverkum og hlutföllum í myndrænum miðlum þ.e. kvikmyndum, sjónvarpi og öðrum myndrænum miðlum.

Með aðalhlutverk fara Guðrún Gísladóttir og Sigurður Sigurjónsson, en auk þeirra fara Hanna María Karlsdóttir og Lilja Þórisdóttir með hlutverk. Verkefnið er styrkt af RÚV, Kvikmyndamiðstöð Íslands og Shorts TV, en framleiðendur eru Freyja Filmwork og Pegasus Pictures.

Freyja Filmwork er framleiðslufyrirtæki í eigu Tinnu Hrafnsdóttur, Þóreyjar Mjallhvítar H. Ómarsdóttur, Daggar Mósesdóttur og Védísar Hervarar Árnadóttur söngkonu, en hún semur einnig tónlistina í myndinni ásamt Stefáni Erni Gunnlaugssyni.

Tengdar fréttir

Innlent

„Eiðurinn“ á kvikmyndahátíðinni í Toronto

Menningarefni

Kvikmyndahátíðir hér og þar