Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Stutt í samning um tónlistarkennslu

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV

Stutt í samning um tónlistarkennslu

09.03.2016 - 19:02

Höfundar

Menntamálaráðherra vonast til að samningar milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun tónlistarskólanna verði kynntir innan skamms. Málið hafi verið rætt í ríkisstjórn. Sérstakur framhaldstónlistarskóli, sem ríkið fjármagnar, tekur starfa í haust, sem liður í samkomulaginu.

Tónlistarskólarnir hafa verið langþreyttir á að ríki og sveitarfélög hafa ekki komið sér saman um kostnaðarþátttöku í tónlistarnámi á framhaldsskólastigi. Ágreiningur um það hefur nánast verið stöðugur síðan samið var um kostnaðarþátttöku ríkisins árið 2011. Þetta hefur haft slæm áhrif á fjárhag skólanna og sumir hafa jafnvel átt erfitt með að greiða laun mánaðarlega. 

Menntamálaráðherra segir að viðræður hafi staðið yfir undanfarna mánuði um lausn á vandamálum kerfisins. „Ég er að vonast til þess að við getum farið að tilkynna innan skamms niðurstöðu í þessu, hvernig við sjáum þetta til framtíðar.“

Illugi vill ekkert tjá sig um niðurstöður slíks samkomulags - aðeins að skoða þurfi ákveðna þætti í fjármögnuninni. Fréttastofa hefur þó heimildir fyrir því að það sem stendur nú útaf sé að fjármagn til nýs tónlistarskóla á framhaldstigi, sem ríkið á að fjármagna, er ekki í hendi nema út þetta ár.

Illugi segir að slíkur skóli sé ein af leiðunum sem séu til skoðunar, sérstaklega fyrir nemendur sem ætla að gera tónlist að lífsviðurværi. „En um leið höfum við verið að horfa til þess að tryggja það að áfram verði stuðningur við tónlistarskólana víða um land. Það kom upp umræða fyrir nokkrum mánuðum síðan að menn höfðu áhyggjur af því að ef menn myndu ráðast í slíkan skóla myndi það draga úr stuðningi við aðra skóla. Það verður ekki.“

Illugi vonar að samningurinn leysi vandamálið sem hafi lengi verið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga um þessi mál. „Og reyndar hefur valdið því að það hefur verið að molna undan tónlistarkennslunni á framhaldsstiginu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og þá alveg sérstaklega hér í Reykjavík.“

Tengdar fréttir

Menntamál

Enn óvissa hjá tónlistarskólum