Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stundin rýfur lögbannið og fjallar um Bjarna

26.10.2018 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: Stígur Helgason - RÚV
Stundin rýfur í dag lögbannið sem fyrir rúmu ári var lagt á fréttaflutning blaðsins upp úr gögnum innan úr gamla Glitni. Á forsíðu blaðsins sem kemur út í dag er mynd af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra undir fyrirsögninni „Bannaðar fréttir birtar“. Í umfjöllun blaðsins segir að Bjarni hafi leitt viðskipti Engeyjarættarinnar í meira mæli en áður hafi komið fram.

Glitnir HoldCo, félagið utan um eignir gamla Glitnis, fékk lögbann á umfjöllun blaðsins og Reykjavík Media um miðjan október í fyrra, tveimur vikum fyrir alþingiskosningar. Í blaðinu hafði verið fjallað um fjármál Bjarna Benediktssonar, sem þá var forsætisráðherra, og tengsl hans við Glitni fyrir hrun. Lögbannið hefur varað í rúmt ár, 375 daga.

Höfðu fjórar vikur til að ákveða sig – þrjár liðnar

Landsréttur felldi lögbannið úr gildi 5. október síðastliðinn og komst þar með að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður gert: að umfjöllun Stundarinnar upp úr gögnunum í fyrrahaust hefði að stærstum hluta átt erindi við almenning.

Forsvarsmenn Glitnis HoldCo hafa ekki viljað svara því hvort til standi að sækja um leyfi til að áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar og á meðan hefur lögbannið haldið gildi sínu. Þeir hafa fjórar vikur frá dómsuppsögu í Landsrétti til að taka þessa ákvörðun. Í dag eru þrjár vikur liðnar. Fréttastofa náði ekki í Ólaf Eiríksson, lögmann Glitnis HoldCo, við vinnslu fréttarinnar.

Láta ekki gjaldþrota banka ákveða hvað fjallað er um

Stundin byggir ákvörðun sína um að rjúfa lögbannið á því sem segir í lögum um kyrrsetningar og lögbann: að þegar þrjár vikur séu frá synjun dómstóla falli lögbann niður. Auk þess segi í lögunum að lögbann haldist eftir áfrýjun til æðri dóms, en staðfesti æðri dómur niðurstöðu héraðsdóms um synjun skuli það falla úr gildi. Þarna sé ekki gert ráð fyrir tilvist Landsréttar, sem sé æðri dómur, og samkvæmt óuppfærðum lögum meti lögmenn Stundarinnar það því óþarft að bíða niðurstöðu enn æðri dómstóls: Hæstaréttar.

Í leiðara blaðsins fjalla ritstjórarnir Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir um siðferðislegar ástæður þess að ákveðið var að fara þessa leið:

„Ritstjórn Stundarinnar hefur ákveðið að láta ekki gjaldþrota banka lengur ákveða hvað fjalla megi um – bæði fjárhagslega, lagalega og siðferðislega gjaldþrota bankastofnun, þar sem stundað var það sem verður ekki kallað annað en skipuleg brotastarfsemi markaðsmisnotkunar og umboðssvika, í þeim tilgangi að blekkja almenning. Ekki er réttlætanlegt með neinu móti að beita þöggun til að koma í veg fyrir umræðu um blekkingu og misnotkun á aðstöðu, jafnvel þótt embætti Sýslumannsins í Reykjavík fallist á það án þess að taka tillit til tjáningarfrelsis og upplýsingaréttar almennings,“ skrifa ritstjórarnir.

Sagður skuggastjórnandi

Í umfjöllun blaðsins í dag segir að gögnin sýni að Bjarni Benediktsson hafi á bak við tjöldin stýrt fjárfestingum fyrirtækjaveldis föður síns, Benedikts Sveinssonar, og föðurbróður, Einars Sveinssonar, fyrir hrunið 2008. Þeir og aðrir í Engeyjarættinni hafi verið ráðandi hluthafar í bankanum og fullyrðir blaðið að bankinn hafi ítrekað vikið frá vinnureglum til að ganga erinda þeirra.

Þá segir frá því að nafn Benedikts Jóhannessonar, sem í fyrrahaust var formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, væri að finna í Glitnisskjölunum, á lánaskjali vegna lána til fjárfestingar í BNT ehf., móðurfélagi N1. Þá frétt hafi Stundin ætlað að segja í aðdraganda kosninganna í fyrrahaust en ekki getað vegna lögbannsins. Haft er eftir Benedikt, sem er frændi Bjarna, að hann hafi ekki fengið umrætt 40 milljóna króna lán, en að hann hafi vissulega fjárfest í BNT ehf.

Uppfært kl. 9.28:
Leiðarinn sem vitnað er til er ritaður af báðum ritstjórum blaðsins en ekki bara öðrum þeirra, eins og sagt var í fyrri útgáfu fréttarinnar.