Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stúlkan frá Víetnam og vald Facebook

09.09.2016 - 15:20
epa05531354 The cover of the Norway's largest newspaper by circulation, Aftenposten, seen at a newsstand in Oslo, Norway, 09 September 2016. Editor-in-chief and CEO, Espen Egil Hansen, writes an open letter to founder and CEO of Facebook, Mark
 Mynd: EPA - NTB SCANPIX
Ákvörðun Facebook um að leyfa ekki birtingu sögulegrar ljósmyndar frá Víetnam-stríðinu hefur vakið mikla ólgu í Noregi. Erna Solberg, forsætisráðherra, sakar Facebook um sögufölsun. Fjölmiðlar víða um heim hafa fjallað um málið. Fulltrúi Facebook segir að ekki sé hægt að birta eina mynd af nöktu barni og banna aðrar.

Vörpuðu eldsprengju 

Áttundi júní árið 1972. Blandaður hópur óbreyttra borgara og suður-víetnamskra hermanna reynir að flýja herlið norður-víetnamskra kommúnista sem hefur hertekið þorpið Trang Bang í Suður-Víetnam. Þau hlaupa frá Caodai-hofinu í átt að svæði sem suður-víetnamski herinn, sem nýtur stuðnings Bandaríkjanna, hefur á valdi sínu. Suður-víetnamskur herflugmaður varpar sprengju á hópinn, hann sér ekki betur en að þarna sé herlið óvinarins á ferð.  Þetta var engin venjuleg sprengja, heldur Napalm-sprengja, eldsprengja með hlaupkenndu bensíni sem brennur með óslökkvandi 2000 stiga heitum loga. Efnið var fundið upp af efnafræðingum við Harvard, það loðir við húðina og veldur skelfilegum brunasárum. 

Of heitt, of heitt

Phan Thi Kim Phúc tekur til fótanna ásamt fleiri börnum. Hitinn er óbærilegur svo hún rífur sig úr fötunum. Of heitt, of heitt. Börnin öskra af sársauka. Það gerir líka ljósmyndin sem ungur stríðsljósmyndari, Nick Ut, tók af hópnum. Þessi svarthvíta mynd hreinlega öskrar af angist og sársauka. Þess vegna birtist hún á forsíðum dagblaða um allan heim. Þess vegna fékk hún Pulitzer-verðlaunin og þess vegna er hún talin í hópi áhrifaríkustu ljósmynda 20. aldarinnar. Hún breytti sýn fólks á stríðið og varð tákngervingur þeirra þjáninga sem einkenndu það.

Myndin vopn Kim Phuc í baráttu fyrir friði

Ut myndaði í leiðslu, uns hann áttaði sig á því hversu illa væri komið fyrir börnunum. Hann hellti vatni á Kim Phuc, án þess að gera sér grein fyrir að það gerði illt verra og keyrði hópinn á sjúkrahús. Kim Phuc var ekki hugað líf. Hún gekkst undir 17 aðgerðir. Nú býr hún í Kanada þar sem hún fékk hæli og berst fyrir friði í heiminum. Myndin er eitt af hennar helstu verkfærum í baráttunni.

Dropinn sem fyllti mælinn

Níundi september árið 2016. Norska dagblaðið Aftenposten hefur hafið herferð gegn reglum Facebook um myndbirtingar. Forsaga málsins er sú að norski rithöfundurinn Tom Egeland reyndi fyrir nokkru að birta grein um sögulegar stríðsljósmyndir á Facebook. Meðfylgjandi var ljósmyndin af Kim Phuc. Algóriþmarnir sem ritskoða Facebook sáu hins vegar ekki sögulega ljósmynd heldur nakið stúlkubarn. Myndinni var eytt. Egeland reyndi aftur og var settur í bann, mátti ekkert birta á Facebook-síðu sinni næsta sólarhringinn. Þetta gerðist aftur, eftir að hann deildi grein Dagsavisens um málið, 24 tíma bann. Egeland fer hörðum orðum um regluverk Facebook  í samtali við Aftenposten, þann 5. september. Hann bendir á að myndin eigi ekkert skylt við barnaklám. Þetta sé söguleg ljósmynd.

Óljóst bann við nekt

Facebook heimilar ekki myndbirtingar af nöktum börnum. Nekt er viðkvæmt mál og fyrirtækið bannar hana þegar hún er talin geta sært blygðunarkennd fólks. Fyrirtækið bannar þannig myndir af geirvörtum kvenna, en ekki karla, eins og mikil umræða hefur spunnist um. Myndir af brjóstagjöf voru heimilaðar eftir að óánægjuraddir höfðu gagnrýnt bann við þeim um langt skeið. Sömuleiðis myndir af konum sem hafa látið fjarlægja brjóst sín með aðgerð. Það er önnur saga. Mál Egeland vakti hörð viðbrögð í Noregi. Aftenposten fjallaði um það. Skrifstofa Facebook í Hamborg skrifaði þá bréf til ritstjórnar blaðsins og bað um að myndin af Kim Phuc yrði fjarlægð af Facebook-síðu fjölmiðilsins. Það gerði útslagið. 

Ritskoðunartilburðir Zuckerbergs ógni tjáningarfrelsi

Forsíða blaðsins er í dag undirlögð. Þar er myndin og undir stendur stórum stöfum: Dear Mark Zuckerberg. Espen Egil Hansen ritstjóri blaðsins skrifar formlegt bréf til forstjóra samskiptamiðilsins Facebook, og ávarpar hann í myndskeiði sem birtist í vefútgáfu blaðsins. Hann segir Zuckerberg valdamesta ritstjóra okkar tíma, enginn annar hafi jafnmikil áhrif á það hvaða upplýsingar berist hverjum. Hann misnoti þetta vald sitt. Hann segist ekki trúa því að Zuckerberg hafi íhugað málið nægilega vel. Ritskoðunartilburðir hans séu ógn við tjáningarfrelsið og frelsi fjölmiðla. 

Kemur í veg fyrir að fjölmiðlar vinni sína vinnu

„Ég er reiður, vonsvikinn, jafnvel hræddur við það hvað þú ert að gera við máttarstoð í okkar lýðræðislega samfélagi,“ segir Hansen. Hann segir það skyldu fjölmiðla að veita almenningi upplýsingar, jafnvel þó þær kunni að vera óþægilegar í augum almennings eða stjórnvalda. Þannig verði umræðan upplýstari. Þannig verða framfarir, þannig virki lýðræðið í hnotskurn. Algóriþmar ættaðir frá skrifstofu Facebook ættu aldrei að geta grafið undan rétti og skyldu fjölmiðla að vinna sína vinnu.

Umræðunni eytt líka

Hann gagnrýnir að reglum miðilsins sé framfylgt þannig að ekki sé greint á milli sögulegra stríðsljósmynda og barnakláms. Þá sé ekki nóg með að Facebook eyði myndinni, fyrirtækið eyði sömuleiðis út allri umræðu og gagnrýni á  það hvernig það framfylgir reglum um myndbirtingar og refsi í þokkabót þeim sem vogi sér að gagnrýna stefnu þess með því að banna þeim að birta efni í einhvern tíma. Hansen spyr Zuckerberg hvort hann myndi banna sambærilegar myndir frá okkar tímum, myndir af börnum sem orðið hefðu fyrir tunnusprengjum eða taugagasi. Myndi hann þá hindra fjölmiðla í að veita almenningi upplýsingar. Hansen lýsir því loks yfir að Aftenposten verði ekki við kröfu fyrirtækisins, áfram verði birtar slíkar myndir á Facebook-síðu miðilsins. „Ef það leiðir til þess að þið lokið Facebook-aðgangi Aftenposten þá verður bara svo að vera,“ segir Hansen. 

Solberg stórhneyksluð

Norskir ráðherrar hafa lýst yfir hneykslan vegna málsins. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs gerði í morgun tilraun til að birta myndina á Facebook-síðu sinni. Hún tók þar undir með Hansen, sagði samfélagsmiðilinn ógna tjáningarfrelsi. Linda Hofstad Helleland, menningarmálaráðherra, deildi myndinni af vegg Solberg. Solberg steig svo upp í flugvél og flaug til Þrándheims. Á meðan var myndinni eytt. Solberg brást við með því að birta myndina og nokkrar sögulegar ljósmyndir til viðbótar, nekt Kim Phuc huldi hún með svörtum kassa, sömuleiðis huldi hún námsmanninn sem stillti sér upp fyrir framan skriðdrekana á Torgi hins himneska friðar.

Ákveðin sögufölsun

Gagnrýni Solberg er hörð, ritsjórnartilburðir miðilsins séu ákveðin sögufölsun. Hún skrifar: Með því að fjarlægja myndir á borð við þessa breytir Facebook sameiginlegri sögu okkar. Ég vona að Facebook noti tækifærið og endurskoði ritskoðunarstefnu sína og sýni þá ábyrgð sem stóru fyrirtæki sem stjórnar breiðum umræðugrundvelli ber að sýna.  Í dag séu ljósmyndir mikilvægt tæki til að koma skilaboðum á framfæri þannig að ef fyrri atburðum er breytt, þá sé sögunni breytt og raunveruleikanum sömuleiðis. „Ég vil að börnin mín og önnur börn vaxi úr grasi í samfélagi sem kennir atburði sögunnar eins og þeir voru. Að þau geti lært af sögulegum atburðum og sögulegum mistökum,“ segir hún.

Loksins svar frá Facebook

Félag ritstjóra í Noregi hefur haft samband við alþjóðleg samtök blaðamanna í von um að þau liðsinni þeim við að þrýsta á Facebook. Tjáningarfrelsið sé í húfi. Málið er efst á baugi í norskum fjölmiðlum og myllutáknið #Dearmark hefur náð flugi á Twitter.  Í dag hafa fjölmiðlar í Bretlandi og Vestanhafs fjallað um málið; meðal annars Guardian, Time og CNN. 

Um hádegi í dag barst loks svar frá netrisanum. Fulltrúi Facebook, sem ekki gaf færi á viðtali, skrifaði, í lauslegri þýðingu: 

„Við áttum okkur á því að þetta er merkileg mynd en það er erfitt fyrir okkur að leyfa eina mynd af nöktu barni en aðrar ekki. Við reynum að finna jafnvægið á milli þess að gera fólki kleift að tjá sig og tryggja, samtímis, að upplifun notenda af miðlinum brjóti ekki gegn siðferðiskennd þeirra. Lausnir okkar eru ekki alltaf fullkomnar, við reynum stöðugt að bæta okkar verklag.“ 

Talsmaður Kim Phuc segir við norska dagblaðið Dagsavisen að það hryggi hana að fólk skuli einblína á nekt hennar í stað þeirra skilaboða sem myndin sendi.

Vald til að ritskoða fjölmiðla 

Sigbjörn Aanes, ráðuneytisstjóri, segir í samtali við NRK að Solberg hafi deilt myndinni til að vekja umræðu um það vald sem Facebook hefur yfir norskum fjölmiðlum. 

Í umfjöllun danska blaðsins Berlingske tidene segir að Facebook sé í dag orðinn einhvers konar hliðvörður fjölmiðla, þar er fréttum og greinum deilt og þær ræddar. Stór hópur nálgast fréttatengt efni fyrst og fremst á Facebook. Blaðið bendir á að samkvæmt könnun sem gerð var í fyrra notar helmingur ungra Dana, 20 til 35 ára, helst samfélagsmiðla til að fylgjast með fréttum. Facebook hefur sætt gagnrýni, fyrir að fjarlægja hitt og þetta. Fyrr á þessu ári var miðililnn gagnrýndur fyrir að hafa dregið úr vægi frétta frá íhaldssömum fréttaveitum Vestanhafs. 

Gildismat Facebook og gildismat heimsins

Algóriþmar miðilsins hafa áhrif á hvað er fjarlægt og hvað ekki, á það hver sér hvað, og þar með hugsanlega á það hvernig fólk sér heiminn og ályktar um hann. Þessir Algóriþmar lúta stjórn forsvarsmanna einkafyrirtækis í Sílíkondal og gildismat þeirra og reglusetning endurspeglar ekki endilega gildismat alls heimsins. Það er það sem Aftenposten hefur nú rekið sig á. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV