Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað

26.06.2018 - 11:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Helmingur landsmanna styður ríkisstjórnina og rúmlega fimmtungur styður Sjálfstæðisflokkinn sem er stærsti flokkurinn á Alþingi. Þetta er niðustaða nýrrar könnunar sem MMR gerði um miðjan júní. Fylgi flokka breyttist lítið frá því í maí. 

 

Stuðningur við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks stendur nánast í stað milli mánaða var 49,8% í maí en 50,1% í júní. Þjóðin er klofin í afstöðu sinni. Helmingur styður stjórnina, hinn helmingurinn ekki. Ríkisstjórnin nýtur ekki sömu hylli og hún gerði í upphafi, þá studdu hana 66% landsmanna. 

Flokkur fólksins bætir mest við sig

Fylgi stjórnmálaflokka breyttist lítið frá því MMR kannaði það síðast í maí. Vikmörk niðurstaðnanna eru um 3,1%. Raunverulegt fylgi getur því verið allt að 3,1% hærra eða lægra en niðurstöðurnar segja til um.

Mestar breytingar urðu á fylgi Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Flokks Fólksins. Viðreisn tapar fylgi, var með 7,1% í síðustu könnun en mælist nú með 5,8%. Flokkur fólksins bætir aftur á móti við sig, var með 5,6% en mælist nú með 8,2%.

Hreyfing á fylgi stjórnarflokka

Meiri hreyfing virtist vera á fylgi ákveðinna flokka innan ríkisstjórnarinnar en fylgi við stjórnina sjálfa. Stuðningur við Sjálfstæðisflokk mældist 21,6% og dróst saman um tvö prósentustig frá síðustu mælingu. Framsókn tapaði örlitlu fylgi, var með 10,1% en mælist nú með 9,5% en fylgi Vinstri grænna fór úr 12% í 12,7%.

Fylgi Miðflokksins mældist 10,6% í júní en mældist 9,8% í síðustu könnun. Hann bætir því við sig 0,8 prósentustigum. Samfylking mældist með 15,1% fylgi sem er aukning um hálft prósentustig frá síðustu mælingu og Píratar stóðu í stað með rúmlega 14% fylgi.  

Svarhlutfall óþekkt

Níu hundruð tuttugu og fimm einstaklingar 18 ára og eldri svöruðu könnuninni, sem var netkönnun. Þeir voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR, sem eiga að endurspegla lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar. Ekki er gefið upp hversu margir fengu könnunina senda og því óljóst hvert svarhlutfallið var. 

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar vantaði upplýsingar um fylgi Miðflokksins. Þeim hefur nú verið bætt við. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV