Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst

11.04.2019 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist um tæp fimm prósentustig og mælist nú 46,5 prósent, samkvæmt nýlegri könnun MMR. Í síðustu könnun, 14. mars, var stuðningurinn 41,8 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn er með mest fylgi flokka á Alþingi, 21,7 prósent. Fylgi flokksins hefur minnkað um tæp tvö prósentustig frá síðustu mælingu MMR. Píratar hljóta, samkvæmt könnuninni, næst mest fylgi, 15 prósent. Þeir voru með 13,6 prósenta fylgi í síðustu könnun. Þar á eftir kemur Samfylkingin með 13,9 prósent sem er 0,1 prósentustigi meira en í síðustu könnun. 

Vinstri græn eru með 10,4 prósenta fylgi sem er einu prósentustigi minna en í síðustu könnun þegar fylgið mældist 11,4 prósent. Miðflokkurinn fær svipað fylgi og Vinstri græn, 10,2 prósent. Hann mælist með um tveimur prósentustigum meira en í síðustu könnun. Fylgi Viðreisnar mælist nú 9 prósent en var 9,4 prósent í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins hefur minnkað töluvert milli kannana. Það er nú 8,7 prósent en mældist 11,1 í síðustu könnun. Flokkur fólksins er nú með 5,4 prósent en var með 4,7 prósent síðast. Sósíalistaflokkurinn mælist með 4,5 prósent samkvæmt könnuninni. 

Könnunin var gerð 4. til 9. apríl síðastliðinn. 926 svöruðu henni.