
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar
Sjálfstæðisflokkur mælist með mest fylgi eða 24,5 prósent og hefur fylgi flokksins dalað um 5 prósentustig frá síðustu könnun. Vinstri grænir eru þar á eftir með 20,5 prósent. Það er örlítið meira fylgi en í síðustu könnun þegar flokkurinn mældist með 20,4 prósenta fylgi.
Fylgi Flokks fólksins eykst
Píratar mælast með 13,5 prósenta fylgi, samkvæmt könnuninni. Í síðustu könnun var fylgið 13,3 prósent. Samfylkingin fengi nú 10,6 prósent sem er það sama og í síðustu könnun. Framsóknarflokkur er nú með 10,1 prósenta fylgi en það var 9,6 prósent í síðustu könnun. Flokkur fólksins hefur bætt við sig fylgi og mælist nú með 6,7 prósent, miðað við 6,1 prósent fyrir mánuði síðan.
Björt framtíð næði ekki sæti á Alþingi
Viðreisn mælist með 6 prósenta fylgi og bætir við sig síðan í síðustu könnun þegar fylgið var 4,7 prósent. Fylgi Bjartar framtíðar mælist nú 3,6 prósent en var 2,4 prósent fyrir mánuði síðan. Flokkurinn kæmi því ekki manni inn á þing yrði kosið nú.
Könnunin var gerð 15. til 18. ágúst. Þátttakendur voru einstaklingar 18 ára og eldri sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Nánar má lesa um könnunina á vef MMR.