Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Stuðningur frá stjórnarandstöðunni

11.11.2012 - 12:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Einhver stuðningur er við Rammáætlunina utan stjórnarflokkanna segir Guðmundur Steingrímsson, sem er utan flokka. Birgir Ármannsson Sjálfstæðisflokki segir að enginn úr hans flokki styðji áætlunina.

Rammaáætlun var rædd í þaula á fundi sem Græna Netið stóð fyrir í gær en það eru umhverfissamtök sem tengd eru Samfylkingunni. Þar sátu fyrir svörum, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Mörður Árnason þingmaður, en hann er talsmaður þingályktunartillögu um Rammaáætlun. Þar kom fram að ekki væri ljóst hvort allir þingmenn Samfylkingar styðji tillöguna í núverandi mynd og að stuðningur við hana  gæti þurft að koma frá þingmönnum utan stjórnarflokkana.

„Það liggur fyrir að innan Samfylkingar eru efasemdir en á móti kemur að meðal óháðra þingmanna svokallaðra úr stjórnarandstöðunni og Hreyfingunni þá gæti verið stuðningur við áætlunina. Við vitum ekki hvað það er mikill stuðningur en aftur á ég ekki von á því að Rammaáætlunin í þeirri mynd sem hún kemur frá ráðherrunum eigi stuðning Sjálfstæðisflokks og ekki Framsóknarflokks heldur,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks sem situr í umhverfis og samgöngunefnd.

Guðmundur Steingrímsson sem stendur utan flokka styður áætlunina. „Það er mjög mikilvægt að það sé sem víðtækust sátt um þetta plagg. Þetta er mjög mikið grundvallar skjal. Auðvitað stendur mesti styrinn um virkjanakosti í neðrihluta Þjórsár. Ég er mjög sáttur við það að þeir séu settir í biðflokk og ég þykist vita að margir aðrir þingmenn sem eru fyrir utan stjórnarmeirihlutan eða alla vega nokkrir aðrir séu líka mjög sáttir við það,“ segir hann.