Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Strókur rís hátt yfir Grímsvötnum

21.05.2011 - 19:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Eldgos er hafið í Grímsvötnum og stígur strókur hátt í loft upp yfir Grímsvötnum. Strókurinn sést víða að og hefur risið hratt síðustu mínúturnar.

Bolli Valgarðsson er nýkominn í bíl nniður af Miðfellstindi ásamt þremur ferðafélögum sínum. „Við erum á Skeiðarársandi, nýkomin yfir Gígjukvísl. Þaðan horfum við á þennan strók. Þetta er greinilega alveg nýbyrjað því hann hækkar mjög hratt,“ segir Bolli. Fyrst þegar ferðafélagarnir sáu strókinn áætluðu þau að hann væri 500 metrar á hæð en örfáum mínútum síðar hafði hann hækkað mjög og áætluðu þau þá að hann væri kominn í tveggja kílómetra hæð. Það passar við frásagnir af sviipuðum tíma þar sem gosstrókurinn sást úr flugvél og var þá áætlaður í 1500 til 1800 metra hæð. Síðan þá er talið að strókurinn hafi risið í þriggja til fjögurra kílómetra hæð.

Gosstrókurinn er hvítur að mestu en öskulitur í honum neðanverðum. Aska fellur úr stróknum, til suðurs undan vindi.

Mökkurinn sést mjög vel frá Selfossi. Líklegt er að flóð muni fylgja í kjölfar gossins, en óvíst er hvenær það hefst.

Helgi Gunnarsson á Kirkjubæjarklaustri segir að gosmökkurinn sjáist vel frá bænum, yfir Síðuheiðar. „Þetta lítur þannig út að þetta er hvítur mökkur og reyndar dökknar í honum. Það er greinileg norðanátt og dökkur skuggi í gosmekkinum þannig að það virðist vera aska í honum.“