Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stríðsástand á Kóreuskaga

30.03.2013 - 01:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöld í Norður Kóreu tilkynntu í nótt að stríðsástand ríkti nú í samskiptunum við Suður Kóreu, um samskipti landanna giltu nú þær reglur sem gildi á stríðstímum.

 Í yfirlýsingu sem ríkisfréttastofa Norður Kóreu birti sagði að lengi hefði hvorki ríkt friður né stríð á Kóreuskaga, nú væri því ástandi lokið. Allar ögranir á landamærum ríkjanna á landi eða á hafi úti muni leiða til allsherjarátaka og kjarnavopnastríðs. Kóreuríkin hafa formlega séð verið í stríði allt frá lokum Kóreustríðsins árið 1953. Því lauk með vopnahléi, ekki friðsarsamningi. Norður Kóreustjórn sagði á dögunum upp vopnahléssamkomulaginu og öðrum samningum við Suður Kóreu til að mótmæla sameiginlegum heræfingum Bandaríkjanna og Suður Kóreu. Heræfingarnar, sem eru haldnar árlega, hafa áður valdið hugaræsingi hjá ráðamönnum í Norður Kóreu, en æsingurinn nú þykir óvenju mikill.