Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Stríða enn við áfallastreitu

Mynd með færslu
 Mynd:
Um 15% þeirra sem bjuggu á Flateyri og í Súðavík þegar snjóflóð féllu þar árið 1995 stríða enn við áfallastreitu. Þetta kemur fram í rannsókn sem Edda Björk Þórðardóttir doktorsnemi hefur gert.

Edda Björk Þórðardóttir doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands er að leggja lokahönd á doktorsritgerð sína sem hún byggir á rannsókn sem hún gerði 2011 meðal þeirra sem voru búsettir eða höfðu lögheimili á Flateyri og í Súðavík 1995. Hún kannaði með margvíslegum hætti hvaða áhrif hörmungarnar, sem riðu yfir fyrir 19 árum, höfðu á íbúanna.

Hún bar saman tvo hópa. Annars vegar Súðvíkinga og Flateyringa og hins vegar íbúa á Raufarhöfn og á Breiðdalsvík. Þessi staðir voru valdir vegna þess að þar hafa aldrei fallið snjóflóð né orðið hamfarir í líkingu við það sem gerðist fyrir vestan. Tilgangur var að kanna hvort tíðni t.d. áfallastreitu, kvíða, þunglyndis og líkamlegra kvilla væri meiri meðal Vestfirðinganna miðað við hópa sem ekki upplifðu sjóflóðin.

Meginniðurstaðan er að svefnvandamál, einkum þau sem tengjast áfallastreitu og streitutengdir sjúkdómar eru algengari meðal þolenda snjóflóðanna en viðmiðunarhópsins. Og að hátt hlutfall þolenda er með einkenni áfallastreitu vegna snjóflóðanna samanborið við sambærilegar erlendar rannsóknir. Ályktun Eddur Bjarkar er að mikilvægt sé að fólk eigi kost á viðvarandi meðferð til að vinna bug á þeim kvillum sem rekja má til áfalla vegna hamfara.