Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stríð um veggjöld í Noregi

27.11.2018 - 16:43
Mynd:  / 
Horfur eru á því að samtök sem berjast gegn veggjöldum í Noregi bjóði fram á fjölmörgum stöðum í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári. Áætlað er að á þessu ári verði innheimt veggjöld fyrir röska 200 milljarða íslenskra króna. Formaður samtakanna segir að ef vel gangi á næsta ári komi til greina að bjóða fram í þingkosningum.

80 til 90 milljarðar á höfuðborgarsvæðinu

Það er orðin nokkuð löng hefð fyrir því að innheimta veggjöld í Noregi. Í fyrra voru innheimt gjöld á 237 stöðum vegna 63 verkefna. Megintilgangurinn er að hraða vegaframkvæmdum. Tekjurnar eru líka nýttar í önnur verkefni, svo sem almenningssamgöngur í þéttbýli. Saga veggjalda hér á landi er ekki umfangsmikil. Í stuttan tíma var innheimt á Keflavíkurveginum, í Hvalfjarðargöngum og til stendur að innheimta gjöld í Vaðlaheiðargöngum. Nú hefur hins vegar umræðan um innheimtu veggjalda fengið byr undir báða vængi. Rætt hefur verið um innheimtu vegna helstu aðkomuleiða að höfuðborginni og nú síðast að innheimt verði veggjöld á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. Megintilgangurinn yrði að standa undir kostnaði vegna lagningar Borgarlínu, almenningssamgangna og vegaframkvæmda. Áætlað er að á höfuðborgarsvæðinu þurfi 80 til 90 milljarða vegna fyrirsjáanlegra framkvæmda. Um helmingur þessarar upphæðar er vegna Borgarlínunnar. Á föstudaginn verða kynntar tillögur um þær framkvæmdir sem taldar eru nauðsynlegar á næstu árum á höfuðborgarsvæðinu.

Hugmyndir um veggjöld hafa verið viðraðar en eru þó mjög skammt á veg komnar. Helst hefur verið litið til Noregs. Auk einstakra verkefna þar eru innheimt gjöld í þéttbýli. Það á t.d. við um Osló, Stavanger, Bergen og fleiri þéttbýlisstaði. Í þessum tilfellum er einkum verðið að afla fjár til uppbyggingar almenningssamgangna.

Andstaða við veggjöldin í Noregi

En það eru ekki allir sáttir við innheimtu veggjalda í Noregi. Samtök gegn innheimtu veggjalda, Folkeaksjonen nei til mer bompenger, voru stofnuð 2014. Þau buðu fram fram sem flokkur í Stavanger  2015 og fengu þrjá kjörna fulltrúa. Samtökin vilja afnema veggjöld sem fjármögnunarleið. Uppbygging innviða sé samfélagslegt verkefni og þess vegna á ábyrgð ríkisins að standa undir fjármögnun þeirra. Samtökin stefna að því að bjóða fram á landsvísu í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári. Auk Stavanger er rætt um framboð í  Osló, Bergen, Tønsberg, Kristiansand, Trondheim, Drammen og Tromsø. 

200 milljarða á þessu ári

Efnt var til mótmæla á Stavangersvæðinu í ágúst eftir að norska þingið samþykkti 28 nýja innheimtustaði og fimm innheimtusvæði eða innheimtuhringi í Rogalandi. Á næstu 15 árum er áætlað að veggjöld á þessu svæði skili 25 milljörðum norskra króna eða rúmlega 360 milljörðum íslenskra króna. Á álagstíma er gjaldið 44 norskar krónur fyrir fólksbíl eða um 640 krónur, utan álagstíma er það um 320 krónur og veglyklar gefa 20% afslátt. Stofnuð hafa verið samtök gegn veggjöldum víða í Noregi og efnt hefur verið til mótmæla.

Vegagerðin í Noregi er með áætlun um vegaframkvæmdir fram til 2023 fyrir um 135 milljarða norskra króna og að að veggjöldin eigi að skila um 40 milljörðum eða um 580 milljörðum íslenskra króna. Í fyrra námu tekjur af veggjöldum í Noregi 145 milljörðum íslenskra króna og í ár stefnir í að tekjurnar verði rúmlega 200 milljarðar.

Nú er nóg komið

Samtökin gegn veggjöldum segja að nú sé komið nóg. Frode Myrholt er formaður þeirra. Hann segir þolmörkunum hafi verið náð í því hve mikið ríkið geti innheimt af veggjöldum. Vandamálið sé að 70% af veggjaldapeningunum fari alls ekki til vegagerðar heldur til almenningssamgangna, Borgarlínu (Bussveien), hjólabrauta og göngustíga. Hann segir að vegtollarnir komi harðast niður á þeim sem eru með lægstu tekjurnar.

„Við förum fram á það að ríkið sjái um þessa fjármögnun til að þetta verði jöfn samfélagsleg dreifing. Þannig að allir í þjóðfélaginu leggi sitt af mörkum vegna uppbyggingar þessara innviða vegna þess að þeir þjóna öllu samfélaginu,“ segir Frode.

Hann segir að krafa samtakanna sé að alveg verði hætt með veggöld vegna þess að það sé óréttlát skattlagning. Rétta leiðin sé að afla tekna í gegnum tekjuskattinn. Hann nefnir dæmi um einstakling sem þénar 400 þúsund norskar krónur á ári og greiðir hámarksgjald sem er 34.000 krónur eða um 500 þúsund íslenskar. Hámarkið eru 75 greiðslur á mánuði. Þessi einstaklingur nálgist að greiða um 10% af tekjunum í veggjöld. Málið horfi öðruvísi við þeim sem er með yfir milljón norskar krónur á ári. Ríkið verði að taka þetta á sínar hendur.

„Þá peninga verður ríkið að finna annaðhvort í olíusjóðnum eða með forgangsröðum útgjalda. Eða í gegnum tekjuskattinn,“ segir Frode Myrholt. 

Átök um veggjöldin

Já, það stendur yfir mikið stríð um veggjöldin í Noregi, segir Frode. Hann segir að samtökin hafi byrjað sem lítill flokkur og fengið þrjá menn kjörna í Stavanger. Nú nái þau eða flokkurinn til stærstu bæja eða borga í Noregi og Facebookhópur þeirra telji mörg hundruð þúsund manns. Hann segir að flokkurinn geti áorkað miklu og neitar því að hann sé eins máls flokkur. Hann sé miðjuflokkur með eigin stefnuskrá. Hann er bjartsýnn á að boðið verði fram á mörgum stöðum.

„Ef við náum góðu fylgi 2019 þá kemur vel til greina að bjóða fram í þingkosningunum 2020,“ segir Frode Myrholt.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV