Stríð gegn börnum

Mynd: RÚV / RÚV

Stríð gegn börnum

09.05.2018 - 09:00
Í Jemen, einu fátækasta ríki heims, ríkir gífurleg neyð, þá sérstaklega meðal barna. Nýjasta söfnunarátak UNICEF á Íslandi mun hefjast með einskonar gjörningi í Listasafni Reykjavíkur þar sem að sögur barnanna munu fá að heyrast.

Þrátt fyrir það hræðilega ástand sem geisar nú í Jemen vegna stríðsins þar í landi, þá virðist það hafa farið framhjá mörgum. „Það er svo mikið að gerast í heiminum að þetta fer oft fram hjá okkur,“ segir Bergsteinn Jónsson framkvæmdarstjóri UNICEF þegar hann er spurður hvers vegna þetta mikla neyðarástand er ekki sýnilegra í fjölmiðlum, „það eru áberandi önnur stríð í gangi sem að hafa einhvernveginn náð hærra,“ og vísar þannig í þau stríð sem að geisa til að mynda í Sýrlandi og Suður-Súdan.

epa06331499 A malnourished Yemeni child receives treatment amid worsening malnutrition in the emergency ward of a hospital in Sana'a, Yemen, 15 November 2017. According to reports, more than 50,000 children under the age of 15 in Yemen are at risk of
Um 20 milljónir líða sára neyð í Jemen, þar af eru 11 milljónir á barns aldri Mynd: EPA-EFE - EPA

Jemen var fátækasta ríki Mið-Austurlanda fyrir stríðið og hefur í raun verið í lamassessi síðan eftir arabíska vorið árið 2011. Í landinu eru um 11 milljónir barna sem að þurfa á aðstoð að halda, hvort sem það er vegna vannæringar eða lítils aðgangs að drykkjarhæfu vatni og hreinlætisaðstöðu. „Þetta er einfaldlega stríð gegn börnum,“ segir Bergsteinn.

Til þess að vekja á þessu athygli hefur UNICEF á Íslandi skipulagt viðburð í Listasafni Reykjavíkur, miðvikudaginn 9.maí, þar sem að fólk getur fengið innsýn inn í skoðanir þess barna, hvað hafa börnin í Jemen sjálf að segja um stríðið? Bergsteinn segist vona að þessi skilaboð muni hreyfa við fólki og að það verði hægt að sameinast um það að grípa til aðgerða.

Bergsteinn var gestur í Núllinu á RÚVnúll en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Frekari upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér og á heimasíðu UNICEF á Íslandi.