Strangt landamæraeftirlit eykur þjáningu

16.08.2018 - 10:52
UNICEF
 Mynd: UNICEF
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út nýja skýrslu um málefni flóttabarna í Mið-Ameríku og Mexíkó þar sem fram kemur að ofbeldi, glæpir og fátækt eru jafnt orsök sem afleiðing fólksflótta. Kallað er eftir tafarlausum aðgerðum og segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi að strangt landamæraeftirlit sé ekki lausnin.

Skýrslan ber heitið Rótlaus í Mið-Ameríku og Mexíkó og hana má nálgast hér.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að börn og ungmenni sem flýja ofbeldi, skipulagða glæpastarfsemi og fátækt í Mið-Ameríku eiga á hættu að festast í vítahring flótta og brottvísana. Börn án fylgdar og konur eru í hvað viðkvæmastri stöðu og eru í verulegri hættu á að verða fórnarlömb ofbeldis og misnotkunar, seld mansali eða jafnvel myrt á leið sinni.

Ástæður þess að börn og fjölskyldur í Mið-Ameríku og Mexíkó leggja á sig erfitt, og oft lífshættulegt, ferðalag til Bandaríkjanna eru meðal annars ofbeldi, glæpir og átök gengja, fátækt og skortur á menntunartækifærum.

Mikil fátækt víða í Mið-Ameríku

Í El Salvador búa 44 prósent barna við fátækt, í Gvatemala 68 prósent og 74 prósent í Hondúras. Fátæk börn og fjölskyldur þeirra taka í mörgum tilfellum lán til að fjármagna flutninga til Bandaríkjanna. Fjárhagsleg staða þeirra er því afar bágborin ef börnin og fjölskyldur þeirra eru send heim þaðan. Þá geta þau ekki endurgreitt lánin sem þau tóku til að flytja til Bandaríkjanna og eru því í verri stöðu en þegar af stað var farið.

Átök gengja er viðvarandi vandamál í mörgum samfélögum í norðurhluta Mið-Ameríku og gengi leitast við að fá börn til liðs við sig. Á milli áranna 2008 og 2016 var að meðaltali eitt barn myrt á dag í Hondúras. Í El Salvador voru 365 börn myrt í fyrra og 942 í Gvatemala.

Börn og fjölskyldur sem flytjast á brott vegna þess að þau eiga á hættu að verða fyrir ofbeldi að hálfu gengja eru samkvæmt skýrslunni í meiri hættu en aðrir ef þau eru send aftur heim án nokkurrar verndar eða stuðnings. Oft á tíðum getur fólk ekki snúið aftur á heimaslóðir vegna þess að það er í hættu og er því á flótta í eigin landi.

Útskúfun fylgir oft misheppnuðum tilraunum til að flytja til Bandaríkjanna eða Mexíkó. Þetta getur gert það að verkum að börn sem snúa heim eiga erfiðara með að aðlagast í skóla og fullorðnir torvelt með að fá vinnu.

„Eins og skýrslan leiðir í ljós þá eru milljónir barna á svæðinu sérlega viðkvæm sökum fátæktar, mismununar, ofbeldis og ótta við brottvísanir,“ segir Marita Perceval, svæðisstjóri UNICEF fyrir Mið-Ameríku og Karíbahaf. „Í mörgum tilvikum eiga börnin, sem send eru aftur til upprunalandsins, ekkert heimili til að snúa aftur til, eru með miklar skuldir á bakinu eða verða skotmörk glæpagengja. Að senda þau aftur í svo ómögulega stöðu gerir það enn líklegra að þau leggist á flótta á ný,“ bætir Perceval við. 

Aðskilnaður og varðhald af hálfu innflytjendayfirvalda geta haft alvarleg sálræn áhrif á börn og haft neikvæð áhrif á þroska þeirra. Í skýrslunni segir að mikilvægt sé að halda fjölskyldum saman og nýta aðrar leiðir en að vista fólk í varðhaldi til að gæta hagsmuna barna á flótta.

„Strangara landamæraeftirlit kemur í raun ekki í veg fyrir það að börn og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu freisti þess að komast yfir landamærin, en eykur þess í stað óþarfa þjáningu fólks á flótta. Barn er fyrst og fremst barn, hverjar svo sem aðstæður hans eða hennar eru. Það þarf að ráðast að rót vandans og tryggja um leið öryggi barnanna á ferð sinni,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Alls voru 68.409 börn á flótta vistuð í varðhaldi í Mexíkó á tveggja ára tímabili, frá apríl 2016 til apríl 2018 en 91 prósent þeirra voru send aftur til Mið-Ameríku. Alls voru 96.216 flóttamenn frá norðurhluta Mið-Ameríku, þar af 24.189 börn og konur, send frá Mexíkó og Bandaríkjunum frá janúar til júní á þessu ári. Meira en 90 prósent þeirra voru flutt frá Mexíkó.

UNICEF leggur fram aðgerðaáætlun í sex liðum fyrir börn á flótta og faraldsfæti í skýrslunni:

  1. Verja þarf börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.
  2. Hætta þarf að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti.
  3. Halda þarf fjölskyldum saman en það er sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna, veita þarf fjölskyldunum síðan lagalega stöðu.
  4. Halda þarf öllum börnum á flótta og faraldsfæti í námi, og veita þeim heilbrigðisþjónustu sem og aðra grunnþjónustu.
  5. Þrýsta þarf á aðgerðir til að takast á við undirliggjandi orsakir hinnar stórfelldu aukningar flóttamanna og fólks á faraldsfæti í heiminum.
  6. Vinna þarf gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa.
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi